Konur eru í meirihluta þeirra aðstoðarmanna sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ráðið.
Samtals eru aðstoðarmennirnir nítján þegar þetta er skrifað, þar af tíu konur og níu karlar. Til samanburðar voru sjö konur og níu karlar aðstoðarmenn ráðherra í síðustu ríkisstjórn en ráðherrarnir eru ellefu talsins.
Meðalaldur aðstoðarmannanna er 39,9 ár. Þeir yngstu eru 28 ára en sá elsti 69 ára. Níu þeirra eru lögfræðingar.
Í byrjun desember áttu fjórir ráðherrar eftir að ráða aðstoðarmenn en núna hafa þeir allir gengið frá ráðningum eins eða tveggja slíkra.
Hver ráðherra má ekki velja sér fleiri en tvo aðstoðarmenn en heimilt er samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur. Ekki er skylt að auglýsa starf aðstoðarmanna og því geta ráðherrar valið þá sem þeir vilja hafa sér við hlið á meðan þeir starfa í ráðuneyti.
Átta ráðherrar af ellefu hafa ráðið sér tvo aðstoðarmenn: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútveg- og landbúnaðarráðherra.
Hinir þrír ráðherrarnir, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, hafa ráðið sér einn aðstoðarmann og hafa því tækifæri til að bæta öðrum við á kjörtímabilinu.
Níu af aðstoðarmönnunum nítján hafa ekki áður starfað sem hægri hönd ráðherra. Einn þeirra, og jafnframt sá elsti, kemur úr heldur óvæntri átt.
Þar er á ferðinni Birgir Jakobsson, núverandi landlæknir, sem hefur störf sem aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra 1. apríl er hann lætur af störfum sem landlæknir. Birgir verður nýorðinn sjötugur þegar hann hefur störf í heilbrigðisráðuneytinu. Áður en Birgir tók við sem landlæknir 1. janúar 2015 starfaði hann í Svíþjóð um langt árabil þar sem hann gegndi ýmsum stjórnunarstöðum við sjúkrahús þar í landi.
Hinn aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra er Iðunn Garðarsdóttir, 28 ára lögfræðingur, sem er jafnframt yngsti aðstoðarmaður ráðherra í ríkisstjórninni ásamt Hafþóri Eide Hafþórssyni, aðstoðarmanni Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Iðunn var fyrsti varaþingmaður VG í Reykjavík norður á síðastliðnu þingi og situr í flokksráði VG.
Elsti og yngsti aðstoðarmaðurinn munu því starfa hlið við hlið í heilbrigðisráðuneytinu. Hvorki Iðunn né Hafþór hafa starfað áður sem aðstoðarmenn ráðherra.
Hafþór Eide er 28 ára viðskiptafræðingur, með BSc-próf frá Háskólanum í Reykjavík auk þess sem hann hefur lokið prófi til verðbréfamiðlunar frá sama skóla. Hann var formaður Sambands ungra framsóknarmanna árið 2013 og kosningastjóri flokksins í Reykjavík í nýafstöðnum alþingiskosningum.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson tók við starfi umhverfisráðherra eftir að hafa verið utan þings. Aðstoðarmenn hans hafa hvorugir reynslu sem aðstoðarmenn ráðherra, eða þau Orri Páll Jóhannsson og Sif Konráðsdóttir.
Orri Páll er 39 ára búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og með BSc-gráðu í vistfræði og stjórnun náttúrusvæða frá Umhverfis- og lífvísindaháskóla Noregs á Ási. Undanfarið hefur hann einnig stundað meistaranám í hagnýtri siðfræði, með áherslu á umhverfis- og náttúrusiðfræði, við Háskóla Íslands.
Sif er 57 ára lögfræðingur. Hún starfaði sem sérfræðingur á ríkisaðstoðarsviði Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel 2008 - 2015 en var áður sjálfstætt starfandi lögmaður í Reykjavík. Hún hefur undanfarin tvö ár starfað við lögmennsku og ráðgjöf á sviði matvælaöryggis og umhverfismála, m.a. fyrir Landvernd.
Á meðal annarra nýrra aðstoðarmanna er Sóley Ragnarsdóttir sem er Ásmundi Daða Einarssyni til halds og trausts. Sóley er 33 ára lögfræðingur sem hefur starfað fyrir Framsóknarflokkinn í Kópavogi. Sóley lauk réttindum til að starfa sem héraðsdómslögmaður vorið 2012. Undanfarin sjö ár hefur Sóley starfað sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu. Áður vann hún um tveggja ára skeið hjá Útlendingastofnun.
Annar nýgræðingur sem hægri hönd ráðherra er Hildur Sverrisson, sem hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún er 39 ára lögfræðingur. Undir lok þessa mánaðar hefur hún störf fyrir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur en þar er fyrir Ólafur Teitur Guðnason, sem var einnig aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar í síðustu ríkisstjórn.
Hildur hefur meðal annars starfað sem lögfræðingur hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365 og sem framkvæmdastjóri V-dags gegn kynferðisbrotum. Hildur skrifaði um árabil bakþanka í Fréttablaðið og ritstýrði jafnframt bókinni Fantasíur.
Bergþóra Benediktsdóttir er einnig að stíga sín fyrstu skref sem aðstoðarmaður ráðherra en hún er Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra til halds og trausts ásamt Lísu Kristjánsdóttur, sem var aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra 2009 til 2010. Bergþóra er 32 ára með BA-gráðu í stjórnmálafræði og hefur starfað sem framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna. Hún gegndi áður starfi mannauðsstjóra hjá Plain Vanilla.
Gunnar Atli Gunnarsson, 29 ára lögfræðingur, er nýjasta viðbótin við aðstoðarmenn ráðherra. Hann verður Kristjáni Þór Júlíussyni innan handar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Gunnar Atli öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 2017. Hann hefur meðal annars starfað sem lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu og sem fréttamaður á Stöð 2.
Kristján Þór mun þar með hafa tvo aðstoðarmenn en fyrir er Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir sem er sem stendur í fæðingarorlofi en hún verið ráðherranum innan handan síðastliðin ár.
Aðrir sem ekki hafa verið nefndir en hafa áður starfað sem aðstoðarmenn ráðherra eru Svanhildur Hólm Valsdóttir og Páll Ásgeir Guðmundsson, aðstoðarmenn Bjarna Benediktssonar, Laufey Rún Ketilsdóttir, aðstoðarmaður Sigríðar Á. Andersen, Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Ingveldur Sæmundsdóttir og Ágúst Bjarni Garðarsson, aðstoðarmenn Sigurðar Inga Jóhannssonar, og Arnar Þór Sævarsson, aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar, sem bættist í hóp aðstoðarmanna á fimmtudag.