„Í keppni að reyna að sakfella menn“

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og fyrrverandi stjórnarformaður Glitnis. Mynd …
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og fyrrverandi stjórnarformaður Glitnis. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn

„Menn eru bara í keppni að reyna að sakfella menn,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Glitnis og forstjóri Samherja, um rannsókn sérstaks saksóknara á markaðsmisnotkunarmáli Glitnis og fleiri málum eftir hrun. Nokkur hiti hljóp í Þorstein er hann bar vitni í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Arngrímur Ísberg dómsformaður þurfti að áminna Þorstein Má um að hann væri kominn fyrir dóminn til að svara spurningum sem vitni en ekki til þess að fjalla um málið og lýsa sinni skoðun á því.

Þorsteinn sagði hugtakið markaðsmisnotkun hafa verið búið til og þróað hér á landi síðustu ár. Sjálfum hafi honum verið gefin staða sakbornings sem hann hafi haft hangandi yfir sér í sex ár.

„Þá var mér sleppt. Þetta er brot á öllum mínum réttindum,“ sagði Þorsteinn og hélt nokkurn reiðilestur um störf embættis sérstaks saksóknara eftir hrun, sem eins og áður segir endaði með því að dómsformaður áminnti hann um að svara einungis spurningum og ekki fjalla um önnur efni.

Hann sagði lán Glitnis til fjórtán lykilstarfsmanna til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum hafa verið lið í breytingum sem áttu að tryggja bankanum gott fólk. Í ákæru málsins segir að lánin hafi ekki verið veitt í viðskiptalegum tilgangi, en því er Þorsteinn ósammála. Hann segir það dæmi um eitt hugtakið sem hafi komið frá sérstökum saksóknara og hann skilji ekki.

Björn Þorvaldsson saksóknari.
Björn Þorvaldsson saksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það hefur viðskiptalegan tilgang að hafa góða stjórnendur,“ sagði Þorsteinn Már og vék að því margoft í svörum sínum við spurningum Óttars Pálssonar, verjanda Lárusar, að þessar lánveitingar hefðu ekki haft neitt með markaðsmisnotkun að gera.

Hann sagði Björn Þorvaldsson saksóknara og embætti sérstaks saksóknara í heild sinni hafa unnið að málum á óheiðarlegan hátt.

„Lárus Welding og við sem unnum í bankanum unnum heiðarlega að málum,“ sagði Þorsteinn enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert