Grunur um refsiverða háttsemi; stórfelld auðgunarbrot og skjalafals. Verksmiðjuhús sem risu í engu samræmi við deiliskipulag og teikningar. Stórskuld við verktakann sem byggði húsin. Lyktarmengun og reykur allt frá fyrstu dögum starfseminnar. Eldur kom ítrekað upp. Stutt saga kísilvers United Silicon í Helguvík er fordæmalaus eins og hér að neðan verður rakið, allt frá útgáfu starfsleyfis til gjaldþrotameðferðar sem nú er að hefjast.
19. mars 2014: Landsvirkjun undirritar raforkusölusamning við United Silicon. Samkvæmt honum útvegar Landsvirkjun rafmagn til kísilverksmiðju sem áformuð er í Helguvík. Samningurinn var gerður með ýmsum fyrirvörum.
Júní 2014: ÍAV hefur undirbúning að framkvæmdum vegna byggingar fyrsta áfanga kísilversins í Helguvík samkvæmt upplýsingum sem finna má á vef fyrirtækisins.
11. júlí 2014: Umhverfisstofnun veitir United Silicon starfsleyfi fyrir rekstur kísilverksmiðju í Helguvík. Í starfsleyfinu er lögð megináhersla á að takmarka losun verksmiðjunnar til lofts enda er verksmiðjan fyrirhuguð í aðeins tveggja kílómetra fjarlægð frá byggð.
17. júlí 2014: Landsvirkjun og United Silicon hf. tilkynna að öllum fyrirvörum hafi verið aflétt í raforkusölusamningi sem fyrirtækin undirrituðu í mars og að hann hafi verið samþykktur af stjórnum beggja félaga.
Samkvæmt samningnum ætlar Landsvirkjun að útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju sem United Silicon reisir í Helguvík. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi á fyrri helmingi ársins 2016 og noti 35 MW af afli.
27. ágúst 2014: Fyrsta skóflustungan tekin að verksmiðjunni í Helguvík. Viðstödd eru m.a. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Magnús Garðarsson, þáverandi framkvæmdastjóri United Silicon. Í ávarpi Magnúsar kemur fram að „allir lykilsamningar“ séu í höfn og að ráð sé gert fyrir að starfsemi verksmiðjunnar hefjist á fyrri hluta árs 2016.
14. apríl 2015: Helgi Þórhallsson ráðinn forstjóri United Silicon hf. Magnús Garðarsson lætur af störfum framkvæmdastjóra. Hann er á þessum tímapunkti stærsti hluthafi í félaginu.
9. maí 2015: Íbúar í Reykjanesbæ lýsa áhyggjum af nálægð kísilversins sem og annars fyrirhugaðs kísilvers við byggð. Ellert Grétarsson, sem fer fyrir hópi íbúa í málinu, segir í samtali við mbl.is, að mörg vafatriði séu í umhverfismatsskýrslunni fyrir United Silicon varðandi mengun. „Það er sem sagt verið að leggja það til að bæjarbúar verði gerðir að einhverskonar tilraunadýrum í lýðheilsutilraun,“ segir hann um óvissu í útreikningum á loftdreifingu frá verksmiðjunni.
6. júlí 2015: Fyrsti ofn kísilverksmiðjunnar kominn til landsins og hafist er handa við að setja hann saman. Í tilkynningu segir að hann komi frá Ítalíu og að stefnt sé á að framleiðslan í verksmiðjunni hefjist á vormánuðum 2016. Haft er eftir yfirverkfræðingi UnitedSilicon að ofninn sé fyrsti áfangi fjögurra ofna verksmiðjunnar og því mikið fagnaðarefni að hann sé nú kominn til landsins.
24. maí 2016: Mbl.is fjallar um skuld United Silicon við Reykjaneshöfn. Upp er komið ágreiningsmál um lokagreiðslu lóðagjalda og segir hafnarstjórinn málið snúast um greiðslu upp á annað hundrað milljónir.
25. maí 2016: Fyrsti farmurinn af hráefni fyrir kísilverksmiðjuna, kvarsi, kominn til landsins. Í júní er von á öðrum hráefnum og prófanir geti þá hafist. Gert er þá ráð fyrir að framleiðslan myndi hefjast í lok júlí.
14. júlí 2016: Lögreglan á Suðurnesjum kölluð til þegar ÍAV, sem sá um framkvæmdir við byggingu 1. áfanga verksmiðjunnar, leggur niður störf. Daginn eftir segir Magnús Garðarsson, stjórnarmaður í United Silicon, að fyrirtækið hafi rift samningi við ÍAV. „Þeir stóðu ekki við verkið,“ segir hann af þessu tilefni. „Þeir voru ekki búnir að skila verkinu á réttum tíma og hafa komið með mjög skrítnar og óréttmætar kröfur sem fara nú fyrir gerðardóm.“
Sigurður Ragnarsson, forstjóri ÍAV, hefur aðra sögu að segja og sagði vanefndir United Silicon slaga hátt í 1.000 milljónir. Magnús segir þetta „tómt rugl“. Á þessum tímapunkti segir hann verksmiðjuna 98% tilbúna til framleiðslu.
13. nóvember 2016: Kísilverksmiðjan gangsett í fyrsta skipti. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, setur ljósbogaofninn formlega af stað. Byggingu verksmiðjunnar er í fréttmbl.is sagt hafa lokið í ágúst og að við hafi tekið prófanir.
23. nóvember 2016: Tíu dögum eftir gangsetningu er birt á mbl.is fyrsta fréttin um kvartanir vegna mengunar frá verksmiðjunni. Þar kemur fram að Umhverfisstofnun hafi á síðustu dögum borist fjöldi ábendinga, annars vegnar um reyk frá kísilverksmiðjunni í Helguvík og hins vegar um viðvarandi brunalykt.“ Í frétt Umhverfisstofnunar um málið segir að fyrirtækið sé enn í „byrjunarfasa“ og búnaður enn í prófun sem skýri lykt og reyk.
28. nóvember 2016: Íbúar voru uggandi frá upphafi. „Þarsíðasta laugardag ætlaði ég að fara að lofta út en það var bara ekki hægt, það var eins og það væri logandi skógur hér í kringum mig,“ segir Hrönn Gestsdóttir, íbúi í Reykjanesbæ.
29. nóvember 2016: Umhverfisstofnun og sóttvarnarlæknir segjast í tilkynningu ekki telja þörf á því að grípa til aðgerða vegna reyks og brunalyktar. Fram kemur að Umhverfisstofnun hafi farið í reglulegt eftirlit á svæðið og fylgst með niðurstöðum loftgæðamælinga. Frá því að verksmiðjan fór í gang hafi mælingar á mengunarefnum aldrei farið yfir skilgreind viðmiðunarmörk vegna heilsuverndar manna.
7. desember 2016: Stundin birtir ítarlega frétt undir fyrirsögninni „Vinnuslys, mengun, undirboð og bágar vinnuaðstæður hjá United Silicon“. Vitnað er í starfsmenn og m.a. sagt frá því að einn þeirra hefði fengið rafstuð og þurft að fara á sjúkrahús.
8. desember 2016: Slökkt er á ofninum í verksmiðjunni eftir að starfsmaður slasast í rafmagnsslysi, eins og það er orðað í fréttmbl.is.
14. desember 2016: Umhverfisstofnun segir frá því á íbúafundi í Reykjanesbæ að stofnunin hafi skráð 11 frávik við starfsemina frá því að hún hófst um mánuði áður. Leki spilliefna á lóð, vandræði með reykhreinsivirkjun og ófullnægjandi skráningar eru meðal helstu athugasemda stofnunarinnar.
3. janúar 2017: Stundin birtir myndskeið á vef sínum af því þegar reyk eða ryki er sleppt út í andrúmsloftið. Umhverfisstofnun sendir þegar fulltrúa sinn á staðinn og niðurstaða heimsóknarinnar er þessi: Rykið sem sést á myndbandi sem birt var með frétt Stundarinnar um málefni United Silicon var kísilryk sem er ekki eiturefni. Þó er einnig bent á að ekki eigi að hleypa því út í andrúmsloftið með þessum hætti.
23. febrúar 2017: Umhverfisstofnun segist stöðva rekstur United Silicon ef ekki verði ráðist í tafarlausar úrbætur í mengunarmálum. Stofnunin hafði þá fengið á sjötta dug kvartana frá íbúum í nágrenni verksmiðjunnar á nokkrum dögum.
30. mars 2017: Frétt birt á mbl.is undir fyrirsögninni: Gleymdu að prófa „núllsýni“. Þar er fjallað um mistök við úrvinnslu sýna á loftgæðum og í tilkynningu United Silicon eru mistökin sögð möguleg skýring á mikilli aukningu þungmálma í sýnum frá október til desember 2016.
18. apríl 2017: Fyrsta frétt mbl.is um eld í kísilverinu birt.
18. apríl: „Nú er komið nóg. Það þarf að loka kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík,“ skrifar Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra á Facebook.
21. apríl 2017: Frestur United Silicon til þess að gera athugasemdir við þá fyrirætlan Umhverfisstofnunar að stöðva starfsemina framlengdur. Starfsemin liggur þá enn niðri vegna eldsvoðans og nokkrum dögum síðar er ákveðið verksmiðjan verði ekki gangsett að nýju án samráðs við Umhverfisstofnun.
28. apríl 2017: Fréttir birtar á RÚV og mbl.is um að hæð bygginga verksmiðjunnar séu 13 metrum hærri en deiliskipulag leyfi.
21. maí 2017: Rétt rúmum mánuði eftir að slökkt var á ofni verksmiðjunnar vegna eldsvoðans er hann ræstur að nýju.
24. maí 2017: Um tuttugu ábendingar höfðu borist Umhverfisstofnun á örfáum dögum vegna lyktarmengunar.
17. júlí 2017: Eldur kemur aftur upp í kísilverinu. Í frétt Víkurfrétta er haft eftir heimildum að kviknað hafi í vegna mistaka sem urðu þegar verið var að mata ljósbogaofn verksmiðjunnar. Slökkt er á ofninum og hann ekki gangsettur fyrr en um mánaðamótin júlí/ágúst.
26. júlí 2017: Niðurstaða gerðardóms í máli IAV og United Silicon liggur fyrir. Samkvæmt henni er US gert að greiða ÍAV milljarð króna vegna vangoldinna greiðslna í tengslum við byggingu kísilversins.
11. ágúst 2017: Íbúar í Reykjanesbæ algjörlega búnir að fá nóg og segjast hafa verið notaðir sem tilraunadýr í níu mánuði. Enn leggur reyk og mikla lyktarmengun frá verksmiðjunni.
14. ágúst 2017: Héraðsdómur Reykjaness veitir stjórn United Silicon heimild til greiðslustöðvunar svo þess megi freista að ná nauðarsamningum við lánardrottna. Ástæðan er í tilynningu frá félaginu sögð erfiðleikar í rekstri vegna síendurtekinna bilana í búnaði.
17. ágúst 2017: Upplýst er í frétt mbl.is að Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna hafi fjárfest fyrir samtals 2.166 milljónir króna íUnitedSilicon.
23. ágúst 2017: Umhverfisstofnun upplýsir að yfir 400 kvartanir vegna lyktarmengunar hafi borist vegna kísilversins í ágústmánuði. 69 bárust á einum degi. Þá hafði verið slökkt enn einu sinni á ofninum og uppkeyrsla hans hafin að nýju en við þær aðstæður ber mest að kvörtunum vegna mengunar. Þann sama dag tilkynnti Umhverfisstofnun að rekstur verksmiðjunnar yrði stöðvaður ef til þess kæmi að slökkt yrði á ofninum á ný.
23. ágúst 2017: 1 milljarðs króna hlutur Arion banka í United Silicon er færður niður. Í hálfsárs uppgjöri bankans kemur einnig fram að hann hafi lánað félaginu 8 milljarða króna sem væru útistandandi.
24. ágúst 2017: Fjölmennur íbúafundur í Reykjanesbæ þar sem fjölmargir íbúar fara fram á að hlustað verði á raddir þeirra og kísilverinu lokað. Íbúasamtök segja frá því á fundinum að þau séu að undirbúa hópmálsókn.
25. ágúst 2017: Ítarleg grein með frásögnum íbúa í nágrenni kísilversins birt á mbl.is. „Fólk finnur særindi í hálsi, verður rauðeygt og tárast. Það finnur fyrir þurrki í nefi og mæðist fljótt. Fólk lokar gluggunum, strýkur ryk af bílum sínum á morgnana og foreldrar hika við að setja börnin sín út að leika sér eða út í vagn að sofa,“ segir m.a. í greininni.
26. ágúst 2017: Eldur kemur enn einu sinni upp í kísilverinu og málmur lekur út á gólf. Í kjölfarið er slökkt á ofninum.
1. september 2017: Ítarleg fréttaskýring birt á mbl.is þar sem fjallað er um stöðu rekstursins hjá United Silicon, athugasemdir Skipulags- og Umhverfisstofnunar sem og þá staðreynd að enginn vilji kannast við gerð loftdreifispár fyrir verksmiðjuna. Þennan sama dag ákveður Umhverfisstofnun að stöðva rekstur verksmiðjunnar.
5. september 2017: Stjórn United Silicon „vinnur hörðum höndum að endurskipulagningu rekstrar félagsins í samvinnu við kröfu hafa þess,“ segir í frétt mbl.is. Karen Kjartansdóttir er ráðin talsmaður fyrirtækisins.
11. september 2017: Stjórn United Silicon hefur í samráði við lögmann félagsins og aðstoðarmann í greiðslustöðvun sent kæru til embættis héraðssaksóknara um mögulega refsiverða háttsemi Magnúsar Garðarssonar, fyrrverandi forstjóra og stofnanda United Silicon. Kæran er byggð á grun um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014.
12. september 2017: „Þetta er ekki skemmtilegt og þetta er ekki satt,“ segir Magnús Garðarsson í samtali við mbl.is. „Þetta er náttúrlega bara stærsta bull og vitleysa sem ég hef nokkurn tímann lesið.“ Hann segir enga peninga hafa farið út úr félaginu.
20. september 2017: Arion banki og fimm lífeyrissjóðir taka yfir 98,13% hluta í United Silicon. Þórður Ólafur Þórðarson er kjörinn nýr stjórnarformaður.
26. september 2017: Sýslumaður samþykkir beiðni stjórnar United Silicon um að kyrrsetja eignir Magnúsar Garðarssonar. Bótakrafa stjórnarinnar á hendur Magnúsi hljóðar upp á 4,2 milljónir evra, sem samsvarar 540 milljónum króna.
11. október 2017: Umhverfisstofnun birtir niðurstöður norsku loftrannsóknarstofnunarinnar, NILU, á loftgæðum við verksmiðju UnitedSilicon. Skýrslunnar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu en niðurstaða hennar er ekki afgerandi. Um 200 efnasambönd mældust en Umhverfisstofnun segir hana ekki sýna með óyggjandi hætti að eitthvert efni valdi þeirri lykt sem komið hafi frá verksmiðjunni. NILU leggur til að farið verði í frekari mælingar á tveimur efnum.
13. október 2017: Arion banki kærir til héraðssaksóknara mögulega refsiverða háttsemi Magnúsar Garðarssonar.
2. nóvember 2017: Þórður Magnússon ráðinn forstjóri United Silicon í stað Helga Þórhallssonar.
24. nóvember 2017: Alþjóðlegir aðilar í kísiliðnaði sagðir hafa sett sig í samband við Arion banka, stærsta hluthafa United Silicon, og lýst yfir áhuga aðkomu að starfsemi verksmiðjunnar. Stuttur áður var greint frá því að kostnaður bankans vegna United Silicon hefði numið 600 milljónum króna frá því að félagið fékk heimild til greiðslustöðvunar.
21. janúar 2018: Boðað til stjórnarfundar hjá United Silicon vegna þeirrar niðurstöðu Umhverfisstofnunar að ljúka verði nær öllum úrbótum sem tilteknar voru í mati norsks ráðgjafafyrirtækisins sem rannsakað hafði tækjabúnað verksmiðjunnar áður en framleiðsla gæti hafist að nýju. Kostnaðurinn var metinn á 3 milljarða en fyrirtækið hafði vonast eftir að geta byrjað framleiðslu eftir úrbætur upp á um 630 milljónir króna.
22. janúar 2018: Heimild United Silicon til greiðslustöðvunar er fallin niður og stjórn félagsins skilar inn gjaldþrotabeiðni.
22. janúar 2018: Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á aðkomu ríkisins að aðdraganda og eftirmálum þess að kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík tók til starfa. Stefnt er að því að úttektin verði tilbúin í lok mars.