Sinnti ekki viðskiptum með bréf Glitnis

Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrverandi yfirmaður deildar eigin viðskipta Glitnis.
Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrverandi yfirmaður deildar eigin viðskipta Glitnis. mbl.is/Árni Sæberg

„Það voru engin loforð um það. Ég var ekki með neinn samning í höndunum um að ég væri ekki ákærður í þessu máli. Það var engu lofað. Grímur bara svarar fyrir sig og ég svara fyrir mig,“ sagði Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrverandi yfirmaður deildar eigin viðskipta hjá Glitni, við spurningu Óttars Pálssonar, verjanda Lárusar Welding, um það hvort honum hefði verið lofað því á fundi með lögreglu að verða ekki ákærður í markaðsmisnotkunarmálinu.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sagði fyrir dómi á föstudag að Magnúsi „hefði mátt vera ljóst“ að hann yrði ekki ákærður í þessu máli ef að hann væri tilbúinn að breyta framburði sínum í Stím-málinu, en í því máli fékk hann friðhelgi fyrir dómi.

Þrír undirmenn Magnúsar Pálma í deild eigin viðskipta eru ákærðir í málinu og hann sagði í svörum sínum í morgun að þeir hefðu starfað sjálfstætt að þeim viðskiptum með eigin bréf Glitnis sem ákært er fyrir í málinu. Magnús fékk reglulega send yfirlit yfir stöðu Glitnis í eigin bréfum en skipti sér ekki að þeim að öðru leyti.

„Ég var ekki sérstaklega góður yfirmaður, ég var ekkert að fylgjast með þessu,“ sagði Magnús Pálmi, sem segist hafa eftirlátið áhættustýringu bankans að sinna eftirliti með störfum deildarinnar. Það hafi ekki verið hans hlutverk.

Sinnti ekki þessum viðskiptum

„Ég gaf starfsmönnum eigin viðskipta aldrei fyrirmæli um eitt eða neitt og ég bannaði þeim heldur aldrei neitt,“ sagði Magnús, sem sjálfur sagðist aðallega hafa starfað í gjaldeyrisviðskiptum og skuldastýringu.

Þrátt fyrir að hann hefði verið yfirmaður deildarinnar sem sá um viðskipti Glitnis með eigin bréf hefði verið ljóst frá því að hann kom inn í deildina að hann „væri aldrei að fara að sinna þessum viðskiptum.“

Magnús Pálmi segir starfsmenn eigin viðskipta hafa haft heimildir í sínu starfi sem hafi verið ákveðnar af öðrum en honum og eftir því sem hann viti hafi þeir farið eftir þeim.

„Rauði þráðurinn er þessi: Strákarnir höfðu ákveðnar heimildir til að eiga viðskipti, sem höfðu verið samþykkt í eftirlit bankans, ég bjóst alltaf við því að þeir væru innan heimilda,“ sagði Magnús.

Hann sagði að hann og Jóhannes Baldursson, yfirmaður hans á þessum tíma og einn ákærðra í málinu, hefðu örugglega rætt saman um tap af viðskiptum deildar eigin viðskipta með eigin bréf.

„Það var einhvern tímann rætt. Þetta var ekkert að ganga sérstaklega vel,“ sagði Magnús Pálmi.

Lánið hluti af starfskjörum

Sjálfur fékk Magnús, eða einkahlutafélagið Langidalur, sem var í hans eigu, 519 milljóna króna lán hjá Glitni til þess að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum. Viðskiptin voru afgreidd 16. maí 2008.

Magnús segir, líkt og aðrir starfsmenn sem komið hafa fyrir dóminn, að hann hafi litið á það lán sem hluta af sínum starfskjörum – sambærilegt við kaupréttarsamninga sem tíðkuðust innan fjármálaheimsins á þessum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert