Um 30 bílar voru fastir og lokuðu veginum frá Norðurbraut við Hvammstanga að Blönduósi í kvöld. Allir bílarnir eru lausir og vann Björgunarsveitin Húnar á Hvammstanga að því að losa bílana frá klukkan sex til níu í kvöld.
Á milli 50 og 60 manns voru fastir í bílunum en engin slys urðu á fólki.
„Það var mjög blint og mikill skafrenningur. Núna hefur aðeins lægt en ekki mikið. Vegagerðin mokar fram til hálfellefu, eftir það verður ekki hægt að hafa veginn opinn og í fyrramálið verður byrjað aftur að moka,“ segir Gunnar Örn Jakobsson, formaður björgunarsveitarinnar Húna á Hvammstanga.
Margir ökumenn voru erlendir ferðamenn og ekki vanir að aka í þessum aðstæðum. Ökutækin voru misjöfn og misvel búin undir vetrarfærð. „Einn af bílunum sem var fastur var húsbíll,“ segir Gunnar.
Gunnar bendir á að þegar erfið akstursskilyrði eru sé slæmt þegar einn bíll stoppar, þá er fljótt að skafa að honum og þar af leiðandi situr hann fastur. Í aðstæðum sem þessum eru dæmi um að færari ökumenn freistist til að taka fram úr en hætta er á að þeir festist einnig, að sögn Gunnars.
Uppfært kl. 23:59:
Vegunum um Fróðárheiði, Fjarðarheiði, Ólafsfjarðarmúla, Vatnsskarð eystra, Hófaskarð, Kleifaheiði, Víkurskarð, Víðidal og Miðfjörð hefur verið lokað vegna veðurs. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.