Vonir standa til að svokallaður blindflugsbúnaður (ILS) verði til taks á Akureyrarflugvelli í byrjun október, en búnaðurinn er liður í því að skipa flugvellinum stærri sess í millilandaflugi á Íslandi.
Þetta segir Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri flugvallasviðs hjá Isavia, en áætlaður kostnaður við verkið er talinn vera í kringum 100 milljónir króna.
Jón Karl segir að enn sé eftir að taka ákvörðun um hvort gamall búnaður á Keflavíkurflugvelli verði nýttur í verkefnið eða nýr búnaður keyptur. „Við erum að vinna verkefnið í samræmi við þá upphæð sem sett hefur verið í fjárlög. Ef það fjármagn stenst og engu bætt við, getum við orðað það þannig að þetta rétt svo dugi fyrir eldri búnaðinum,“ segir Jón Karl og bætir við að til lengri tíma litið væri skynsamlegra að kaupa nýjan búnað.