„Við getum ekki knúið það fram að hún víki strax. En við getum haldið málinu lifandi með rannsókn sem er það líklegasta í stöðunni til að fá hana til að axla ábyrgð,“ sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, á Pírataspjallinu á Facebook í gærkvöldi þar sem Landsréttarmálið var til umfjöllunar. Voru skiptar skoðanir um það hvort leggja ætti fram vantraust á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra strax eða hvort bíða ætti betra færis.
Jón Þór boðaði vantrauststillögu á Sigríði í lok nóvember ef hún yrði áfram dómsmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, einnig ítrekað kallað eftir afsögn ráðherrans. Síðast í gær. Sagði Jón Þór í umræðunni í gærkvöldi að tvær leiðir væru færar til þess að leggja fram vantrauststillögu. Annars vegar að leggja fram slíka tillögu strax, sem þýddi að margir þingmenn gætu lagst gegn því á þeim forsendum að þeir vissu ekki nógu mikið um málið, eða rannsaka málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis „til að upplýsa málið svo vel að mögulegt sé að þingmenn VG verði að samþykkja vantraust.“
Markmiðið með rannsókn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er þannig það að mati Jóns Þórs, sem sæti á í nefndinni sem 2. varaformaður, miðað við umræðuna á Pírataspjallinu að setja þrýsting á einkum þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs að samþykkja vantraust á dómsmálaráðherra. Fram kemur í umræðunni að sjálfur telji hann enga þörf á að upplýsa málið frekar og undir það tekur Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
„Ég er talsmaður þess að skella okkur í þetta [vantraust] en út af því að við erum með mjög öflugt fólk í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem við treystum til þess að skila okkur góðum gögnum um málið þá er það betri leið í þessu tilviki,“ segir Björn Leví í umræðunni á Pírataspjallinu og síðar: „Mér finnst ekki vanta nein gögn en markmiðið er væntanlega að ganga svo frá málinu að skilja ekki eftir neinn efa fyrir þingmenn sem eru ekki á þeim stað. Markmiðið er að láta þetta ganga alla leið ekki satt?“
Jón Þór segir að eftir dóma Hæstaréttar í Landsréttarmálinu hafi Píratar talið að VG myndi gera eitthvað í málinu en það hafi ekki gerst. Fyrir vikið hafi verið ákveðið „að byggja málið upp hægt og örugglega“ til að auka líkurnar á því. Hann segist ekki hafa áhyggjur af því að málið dagi uppi á meðan virk rannsókn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé í gangi. Málið verði unnið vel innan nefndarinnar með það í forgangi að ráðherrann víki.
Jón Þór upplýsir að hann hafi kallað efir gögnunum frá dómsmálaráðuneytinu sem nefndarmenn fengu afhent fyrir helgi og var síðan fjallað um á fréttavef Stundarinnar: „Ég kallaði eftir upplýsingunum sem voru að koma fram.“ Sigríður er spurð að því í Morgunblaðinu í dag hvort hún telji að einhver nefndarmanna hafi lekið gögnunum. Segist hún ekkert ætla að fullyrða um það en nefndin hafi ein fengið þau afhent.