Markmiðið að koma ráðherranum frá

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við getum ekki knúið það fram að hún víki strax. En við getum haldið málinu lifandi með rannsókn sem er það líklegasta í stöðunni til að fá hana til að axla ábyrgð,“ sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, á Pírataspjallinu á Facebook í gærkvöldi þar sem Landsréttarmálið var til umfjöllunar. Voru skiptar skoðanir um það hvort leggja ætti fram vantraust á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra strax eða hvort bíða ætti betra færis.

Jón Þór boðaði vantrauststillögu á Sigríði í lok nóvember ef hún yrði áfram dómsmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, einnig ítrekað kallað eftir afsögn ráðherrans. Síðast í gær. Sagði Jón Þór í umræðunni í gærkvöldi að tvær leiðir væru færar til þess að leggja fram vantrauststillögu. Annars vegar að leggja fram slíka tillögu strax, sem þýddi að margir þingmenn gætu lagst gegn því á þeim forsendum að þeir vissu ekki nógu mikið um málið, eða rannsaka málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis „til að upplýsa málið svo vel að mögulegt sé að þingmenn VG verði að samþykkja vantraust.“

Reynt að setja þrýsting á Vinstri-græn

Markmiðið með rannsókn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er þannig það að mati Jóns Þórs, sem sæti á í nefndinni sem 2. varaformaður, miðað við umræðuna á Pírataspjallinu að setja þrýsting á einkum þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs að samþykkja vantraust á dómsmálaráðherra. Fram kemur í umræðunni að sjálfur telji hann enga þörf á að upplýsa málið frekar og undir það tekur Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

„Ég er talsmaður þess að skella okkur í þetta [vantraust] en út af því að við erum með mjög öflugt fólk í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem við treystum til þess að skila okkur góðum gögnum um málið þá er það betri leið í þessu tilviki,“ segir Björn Leví í umræðunni á Pírataspjallinu og síðar: „Mér finnst ekki vanta nein gögn en markmiðið er væntanlega að ganga svo frá málinu að skilja ekki eftir neinn efa fyrir þingmenn sem eru ekki á þeim stað. Markmiðið er að láta þetta ganga alla leið ekki satt?“

Kallaði eftir gögnunum sem var lekið

Jón Þór segir að eftir dóma Hæstaréttar í Landsréttarmálinu hafi Píratar talið að VG myndi gera eitthvað í málinu en það hafi ekki gerst. Fyrir vikið hafi verið ákveðið „að byggja málið upp hægt og örugglega“ til að auka líkurnar á því. Hann segist ekki hafa áhyggjur af því að málið dagi uppi á meðan virk rannsókn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé í gangi. Málið verði unnið vel innan nefndarinnar með það í forgangi að ráðherrann víki.

Jón Þór upplýsir að hann hafi kallað efir gögnunum frá dómsmálaráðuneytinu sem nefndarmenn fengu afhent fyrir helgi og var síðan fjallað um á fréttavef Stundarinnar: „Ég kallaði eftir upplýsingunum sem voru að koma fram.“ Sigríður er spurð að því í Morgunblaðinu í dag hvort hún telji að einhver nefndarmanna hafi lekið gögnunum. Segist hún ekkert ætla að fullyrða um það en nefndin hafi ein fengið þau afhent.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka