Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, var kosin einn af varaforsetum Evrópuráðsþingsins, á fundi þingsins sem stendur nú yfir í Strassborg. Meginhlutverk varaforseta er að stýra þingfundum í fjarveru þingforseta en á þinginu sitja 318 þingmenn sem fulltrúar rúmlega 800 milljóna Evrópubúa.
Alþingi Íslendinga hefur átt aðild að þinginu frá 1950 sem er samstarfsvettvangur þingmanna frá 47 Evrópulöndum. Markmið Evrópuráðsins er að standa vörð um hugsjónir aðildarríkjanna; mannréttindi og lýðræði. Evrópuráðsþingið hefur oft haft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála á borð við Mannréttindasáttmála Evrópu og Félagsmálasáttmála Evrópu.
Að auki er Evrópuráðsþingið mikilvægur umræðuvettvangur fulltrúa evrópskra þjóðþinga um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál, vísindi, menningar- og menntamál.
Rósa Björk er formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins en í henni sitja líka þingmennirnir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Bergþór Ólason. Þetta kemur fram í tilkynningu.