Gjaldtaka verði skoðuð af alvöru

Bílar á ferð um Vesturlandsveg.
Bílar á ferð um Vesturlandsveg. mbl.is/Ómar

„Ég er mikill talsmaður þeirra aðferða að fjármagna vegakerfið með gjaldtöku af þeim sem nota viðkomandi vegi og tel það vera leið til þess að flýta framkvæmdum í samgöngum. Ég hef ekki skipt um skoðun síðan í september,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson, sem flytur erindi á opnum fundi á Akranesi í kvöld um samgöngumál á Vesturlandi.

Hann var formaður starfshóps um möguleika á framkvæmdum á stofnleiðum í nágrenni Reykjavíkur og fjármögnun þeirra. Hann er einnig formaður Samtaka atvinnulífsins. 

Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu þar sem lagt var til að ómönnuðum gjaldhliðum verði komið fyrir á helstu stofnvegum á Suðvesturlandi. Þar kom fram að gjaldtaka væri háð því hvaða leið yrði farin, frá því að vera 50% upp í 100% af gjaldskrá Hvalfjarðarganganna.

Eyjólfur Árni Rafnsson.
Eyjólfur Árni Rafnsson. mbl.is/Hanna

„Ekki ýta henni í burtu“

„Ég tel það vera mjög áhugaverða leið til að bæta okkar stofnbrautir og auka öryggi þeirra. Ég tel þetta vera leið sem á að skoða af fullri alvöru. Ekki ýta henni í burtu án umræðu um kosti þess og galla,“ segir hann.

Varðandi tvöföldun Vesturlandsvegar að Hvalfjarðargöngum telur hann möguleika á verkefnið verði boðið út snemma á næsta ári.  

Eyjólfur Árni kveðst líta á fundinn í kvöld sem tækifæri til að skiptast á skoðunum um hvaða leiðir og lausnir eru færar.

Spurður segir hann aukinn þrýsting á að farið verði í vegaframkvæmdir á Kjalarnesi vera eðlilegan. „Þessar þrjár meginstofnleiðir frá höfuðborgarsvæðinu, að Reykjanesi, austur fyrir Selfoss og í Borgarnes eru gríðarlega mikilvægar leiðir til þess að laga og það þarf að gera það til að bæta öryggi,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert