Hópur kvenna af erlendum uppruna hefur nú stigið fram í krafti #metoo-byltingarinnar og segja konurnar sínar sögur af kynferðisofbeldi, áreitni og mismunun sem þær hafa orðið fyrir. Þær hafa sent frá sér yfirlýsingu og áskorun til samfélagsins sem 97 konur undirrita, ásamt því að birta yfir 30 frásagnir af ofbeldi. Kjarninn greindi fyrst frá.
Í yfirlýsingunni kemur fram að konur af erlendum uppruna hafi átt erfitt með að finna sig innan #metoo-byltingarinnar. „Fáar af þeim konum sem stigið hafa fram með sínar frásagnir hingað til, tilheyra þeim hópi. En er það vegna þess að við erum hafðar útundan eða kjósum við að standa hjá? Það er mikilvægt að við leitum svara við þeim spurningum og að við þorum að finna svörin við þeim.“
Konurnar krefjast sömu athygli og íslenskar kynsystur þeirra og að samfélagið bregðist við þeirra frásögnum með sama hætti og frásögnum íslenskra kvenna. Þær segja að innan þeirra áætlana og ferla sem nú sé verið að setja saman þurfi að vera pláss fyrir konur af erlendum uppruna.
Í yfirlýsingunni segir að frásagnir kvennanna séu ofnar fordómum, mismunun, markvissu niðurbroti, vanrækslu, útilokun og misnotkun. „Margar okkar hafa upplifað það að hafa verið yfirgefnar og einangraðar af hálfu þeirra sem þær treystu. Með því að sameinast um frásagnir hafa augu okkar hins vegar opnast fyrir því að samfélagið hefur um langa hríð snúið blinda auganu að ýmsu misjöfnu sem átt hefur sér stað gagnvart konum af erlendum uppruna. Framkomu sem hefur leitt til þess að margar okkar upplifa sig ekki öruggar og að mörgum okkar finnst við ekki eiga sama rétt til verndar, aðstöðu og réttinda í íslensku samfélagi.“
Mikilvægt sé að setja á dagskrá ástæður fordóma, mismununar og niðurbrots sem konur af erlendum uppruna upplifa á Íslandi. Sumar þeirra sem hafi orðið fórnarlömb heimilisofbeldis, kynferðisofbeldis og jafnvel mansals, sé markvisst haldið í viðkvæmri stöðu sem jafnvel sé notuð gegn þeim.
„Þegar þessar konur sjá drauma og vonir verða að engu vegna kerfisbundinna fordóma, vanrækslu og mismununar, er þeim þröngvað í hlutverk fórnarlambs sem oftar en ekki er upp á kvalara sinn komið.“
Fram kemur í umfjöllun Kjarnans að Facebook-hópur hafi verið stofnaður fyrir nokkrum dögum þar sem konunum var gert að kleift að segja frá ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Hópurinn stækkaði hratt og eru nú í honum um 660 konur sem allar eru annað hvort af fyrstu eða annarri kynslóð innflytjenda.