Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu Mjólkursamsölunnar, MS, um að vísað yrði frá dómi máli sem Samkeppniseftirlitið höfðaði til að fá úr því skorið hvort bann samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu taki að fullu til MS og hvort brot hefur átt sér stað.
Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu kemur fram að stofnunin hafi talið mikilvægt fyrir hagsmuni smærri framleiðenda, bænda og neytenda að fá úr þessu skorið.
Úrskurðurinn felur í sér að málið fær nú efnismeðferð fyrir héraðsdómi.
„Forsaga málsins er sú að í júlí 2016 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að MS hefði með alvarlegum hætti brotið gegn banni 11. gr. samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Nánar tiltekið hefði MS misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja smáum keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum, þ.e. hrámjólk, á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar (Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfélag þess) fengu sama hráefni á mun lægra verði, og að auki undir kostnaðarverði,“ segir í tilkynningunni.
„Jafnframt hefði MS brotið gegn skyldu samkeppnislaga til þess að veita sannar og fullnægjandi upplýsingar. Lagði Samkeppniseftirlitið á MS 440 mkr. sekt vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu og 40 mkr. sekt vegna brota á upplýsingaskyldu," segir meðal annars í tilkynningunni.
„Eftir skoðun á forsendum úrskurðar meirihluta áfrýjunarnefndar taldi Samkeppniseftirlitið nauðsynlegt að stefna MS fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til þess að fá hnekkt framangreindri niðurstöðu um samspil búvörulaga og samkeppnislaga. Miðar sú málshöfðun að því að fá úr því skorið hvort bann samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu taki að fullu til MS. Jafnframt verði fengin fullnaðarúrlausn um hvort fyrirtækið skuli sæta fullri ábyrgð vegna þeirrar háttsemi sem fjallað er um í málinu og Samkeppniseftirlitið hefur metið sem alvarleg brot gegn minni keppinautum. Mun Samkeppniseftirlitið krefjast þess að MS greiði þá stjórnvaldssekt sem eftirlitið taldi hæfilega í ákvörðun sinni frá júlí 2016.“
Í tilkynningu frá MS kemur fram að enginn fótur sé fyrir túlkun Samkeppniseftirlitsins.
„Enda þótt mjólkuriðnaðurinn hafi heimild til samstarfs á grundvelli búvörulaga er hann ekki undanþeginn banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Samkeppniseftirlitið heldur því fram í málshöfðun sinni að MS hafi brotið gegn banninu en áfrýjunarnefndin talið að ákvæði búvörulaga veittu undanþágu frá bannreglunni. Enginn fótur er fyrir þessari túlkun því niðurstaðan byggðist á að engin misnotkun hefði átt sér stað. Áfrýjunarnefndin úrskurðaði að framkvæmd samstarfsins hefði verið málefnaleg og forsvaranleg,“ segir meðal annars í tilkynningunni frá MS.