Leggja til endurgreiðslu fyrir fréttamiðla

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra tekur við skýrslunni frá Björgvin Guðmundssyni, formanni …
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra tekur við skýrslunni frá Björgvin Guðmundssyni, formanni nefndarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem skilaði niðurstöðum sínum í dag til menntamálaráðherra, leggur til að ríkissjóður endurgreiði 25% af framleiðslukostnaði einkarekinna fjölmiðla sem fellur til við framleiðslu á fréttum og fréttatengdu efni á Íslandi. Þá leggur nefndin einnig til að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði og að virðisaukaskattur á sölu og áskriftum á rafrænu formi og af hljóð- og myndefni eftir pöntun verði 11%.

Í heild eru tillögurnar settar fram í sjö liðum og miða að því að bæta rekstrarskilyrði fjölmiðla. Þá er einnig samantekt í skýrslunni um opinberan stuðning við fjölmiðla í helstu nágrannaríkjum. Tveir nefndarmannanna skiluðu séráliti.

Tillögur nefndarinnar eru eftirfarandi:

a) Endurgreiðsla á hluta kostnaðar vegna framleiðslu á fréttum og fréttatengdu efni
b) Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði
c) Virðisaukaskattur á sölu og áskriftum á rafrænu formi og af hljóð- og myndefni eftir pöntun verði 11%
d) Áfengis og tóbaksauglýsingar verði heimilaðar
e) Endurgreiðsla á hluta kostnaðar vegna textunar og talsetningar
f) Undanþáguheimildir frá textun og talsetningu
g) Gagnsæi í kaupum hins opinbera á auglýsingum

Eins og fyrr segir er varðandi lið a lagt til að endurgreiðslan nemi 25% af framleiðslukostnaði einkarekinna fjölmiðla sem til fellur við framleiðslu á fréttum og fréttatengdu efni á Íslandi. Er miðað við sama hlutfall og tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og hljóðritunar á tónlist.

Varðandi lið b telur meirihluti nefndarinnar að hverfa eigi sem fyrst frá því að ríkið sé í samkeppnisrekstri í auglýsingasölu, bæði í sjónvarpi og útvarpi. Er meirihluti nefndarinnar samþykkur þessu.

Nefndin leggur til að fjölmiðlar geti fengið endurgreiðslu fyrir 25% …
Nefndin leggur til að fjölmiðlar geti fengið endurgreiðslu fyrir 25% af kostnaði við fréttavinnslu. mbl.is

Nefndin í heild leggur til að sala og áskriftir dagblaða, tímarita og landsmála- og héraðsfréttablaða, hvort sem eru á prentuðu eða rafrænu formi, skattleggist í sama skattþrepi og falli í lægra skatthlutfall virðisaukaskatts, 11%. Meiri hluti nefndarinnar telur jafnframt að áskriftir hljóð- og myndmiðla, bæði í línulegri dagskrá og hljóð- og myndefni eftir pöntun skuli falla undir lægra skattþrep virðisaukaskatts, þ.e. 11% skatthlutfall.

Meirihluti nefndarinar vill að áfengis- og tóbaksauglýsingar verði heimilaðar, innan þess ramma sem alþjóðlegar skuldbindingar segja til um.

Textun og talsetning getur reynst dýr og leggur nefndin til að einkareknir fjölmiðlar geti sótt um endurgreiðslur til að mæta kostnaði af lögbundinni textun og talsetningu yfir á íslensku. Þá er lagt til að fjölmiðlar geti sótt um undanþágu til Fjölmiðlanefndar frá textun eða talsetningu á erlendu efni.

Að lokum er lagt til að skýrar reglur verði settar um gagnsæi í auglýsingakaupum hins opinbera þannig að opinberum aðilum beri að birta sundurliðaðar upplýsingar um kaup á auglýsingum.

Eftirfarandi skipuðu nefndina:

  • Björgvin Guðmundsson, formaður, meðeigandi KOM ráðgjafar, skipaður án tilnefningar
  • Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, skipuð án tilnefningar
  • Hlynur Ingason, starfsmaður í fjármála- og efnahagsráðuneyti, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra
  • Soffía Haraldsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri mbl.is, skipuð án tilnefningar
  • Svanbjörn Thoroddsen, meðeigandi KPMG, skipaður án tilnefningar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert