Framkvæmdastjórn SÁÁ samþykkti á fundi sínum í gær að hefja undirbúning að lokun göngudeildar SÁÁ á Akureyri.
Samtökin starfa nú eftir 100 milljóna króna niðurskurðaráætlun og er lokun göngudeildarinnar á Akureyri hluti þeirrar áætlunar, að því er kemur fram í tilkynningu.
SÁÁ hóf rekstur göngudeildar á Akureyri í byrjun árs 1993 og hefur deildin sinnt ráðgjöf og greiningu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á öllu Norðurlandi síðan.
Flestir þjónustuþegar koma til að fá eftirfylgd að lokinni dvöl á sjúkrahúsinu Vogi eða eftirmeðferðarstöðinni Vík.
Einnig hafa aðstandendur sótt margvíslega þjónustu á göngudeildinni, sem og fólk með spilafíkn. Árið 2017 voru 350 ráðgjafaviðtöl skráð á göngudeild Akureyrar og yfir 1.200 komur í úrræði, fyrirlestra og grúppur.
Í tilkynningunni kemur fram að engin framlög hafi komið frá ríkinu til göngudeildarstarfsemi SÁÁ undanfarin þrjú ár.