„Maður bara gapir“

Helga Vala sagði Óla Björn virða að vettugi þá vinnu …
Helga Vala sagði Óla Björn virða að vettugi þá vinnu sem unnin væri á RÚV. mbl.is/​Hari

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að henni hefði þótt hörmulegt að hlusta á málflutning Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í umræðu um stöðu einkarekinna fjölmiðla. Sagði Helga Vala hann virða að engu það gríðarmikla menningarstarf sem starfsfólk RÚV innti af hendi á hverjum degi. En Óli Björn lýsti því meðal annars yfir að hann vildi RÚV af auglýsingamarkaði og kallaði fjölmiðilinn „fílinn í stofunni“ vegna skakkrar samkeppnisstöðu. Hann var málshefjandi að umræðunni.

„Þegar ég undirbjó umræðu um einkarekna fjölmiðla í morgun þá var ég svo bláeyg að ég hélt að ég væri í alvöru að fara að ræða hugmynd málshefjanda um stöðu einkarekinna fjölmiðla, bága stöðu þeirra,“ sagði Helga Vala í upphafi ræðu sinnar. Sagðist hún hafa skoðað nýútkoma skýrslu nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og aflað sér frekari upplýsinga til að taka þátt í umræðunni.

Það hafi hins vegar verið ljóst í upphafi ræðu Óla Björns að tilgangur hans var alfarið að hjóla í Ríkisútvarpið. „Hann talaði þannig um þessa sameiginlegu menningarstofnun okkar, þessa aldagömlu stofnun sem nýtur sérstöðu í framleiðslu upplýsinga- og menningarefnis hér á landi, að maður bara gapir,“ sagði Helga Vala og benti á að enginn fjölmiðill væri á pari við miðla RÚV þegar kæmi að upplýsinga- og menningarhlutverki.

„Ég skil ekki af hverju við getum ekki einhent okkur í það að efla stöðu einkarekinna fjölmiðla án þess að þurfa að vega svo mjög að þessari stofnun okkar, þessari sameiginlegu eign okkar. Ég átta mig ekki alveg á þessu.“

Sagði hún fjölmargar góðar tillögur koma fram í skýrslu nefndarinnar og hvatti menntamálaráðherra til að fara fljótt og vel í þá vinnu sem þar væri verið að leggja á borð. „En bið um leið fólk að gæta hófs í orðum sínum þegar kemur að Ríkisútvarpinu og því starfsfólki sem þar vinnur.“

Þegar Óli Björn steig aftur í ræðustól sagðist hann hins vegar hvorki hafa skilið upp né niður í ræðu Helgu Völu. Hún hefði talað þannig að það virtist sem hún hefði ekki hlustað á hann, eða hann hefði talað með þeim hætti að hún skildi hann ekki.

Full ástæða til að hafa varann á

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, tók einnig til máls í umræðunni og sagði fulla ástæðu til að hafa varann á þegar ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, boðaði endurskoðun á skattalegu umhverfi fjölmiðla og annað inngrip í samkeppnisumhverfið.

Hanna Katrín spurði hvort komið yrði í veg fyrir að …
Hanna Katrín spurði hvort komið yrði í veg fyrir að boðaðar skattabreytingar myndu hygla stærri fyrirtækjum. Ljósmynd/Aðsend

Spurði hún hvort ríkisstjórnin myndi tryggja að staða RÚV á auglýsingamarkaði kæfði ekki aðra, sérstaklega smærri fjölmiðla. Hvort boðaðar skattabreytingar myndu ekki fyrst og fremst hygla stærri fjölmiðlum á áskriftamarkaði, til að mynda fjölmiðlum með fjársterka eigendur sem væru kannski orðnir þreyttir á gegndarlausum taprekstri þrátt fyrir ótvíræðan ávinning í þágu sérhagsmuna.

Þá spurði hún hvort ríkisstjórnin myndi koma í veg fyrir að einstaka fjölmiðlar kæmust áfram upp með það að vera í samkeppnisrekstri árum saman án þess að standa skil á sköttum og gjöldum og að hægt væri að komast til leyniáhrifa í þessum miðlum með yfirtöku á skuldum, þvert á markmið fjölmiðlalaga.

„Mun það verða raunverulegt markmið að tryggja hagsmuni allra fjölmiðlafyrirtækja og tryggja þannig nauðsynlega fjölbreytni og almannahagsmuni?“ spurði Hanna Katrín og beindi spurningu sinni til Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.

Lilja sagði í svari sínu að sjálfsögðu yrði gætt jafnræðis fjölmiðla í landinu í þeirri stefnumótum sem framundan væri. Annað væri útilokað. „Ég kalla bara eftir samvinnu þingmanna, að við séum ekki að setja hlutina fram þannig að þeir séu til þess fallnir að búa til tortryggni. Vegna þess að öll sú vinna sem við munum fara í verður gerð á opinn og gagnsæjan hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert