„Við eigum að búa til hér umhverfi þar sem sjálfstæðir fjölmiðlar ná að festa rætur þannig þeir geti sinnt sínu hlutverki. Það er bara staðreynd að miðað við það fyrirkomulag sem við höfum haft þá er búið að skekkja stöðuna með þeim hætti að verður ekki við unað. Fíllinn í stofunni heitir Ríkisútvarpið.“ Þetta sagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í dag þar sem fór fram umræða um stöðu einkarekinna fjölmiðla, en hann var málshefjandi.
Sagðist hann hafa ákveðnar hugmyndir um það hvort ríkið ætti yfir höfuð að reka fjölmiðil eða ekki. Það væri allt annað mál. Fyrst ákveðið hefði verið að reka ríkisfjölmiðil þá væri nauðsynlegt að jafna stöðuna með einhverjum hætti.
Hann sagði stöðuna á íslenskum fjölmiðlamarkaði vera þannig að hann yrði að beygja af leið. Hann hefði hingað til ekki verið talsmaður þess að sértækar reglur giltu um fyrirtæki, en þegar kæmi að íslenskum fjölmiðlum vildi hann hafa leikreglurnar skýrar. Hann sagði einkarekna fjölmiðla berjast í bökkum í því umhverfi sem hefði verið skapað hér á landi. Leikurinn væri ójafn, eins og jafn og hann gæti verið í samkeppnisumhverfi.
Óli Björn sagðist leggja til að að virðisaukaskattur yrði afnuminn af áskriftum fjölmiðla og skoðað yrði hvernig tryggingagjald væri innheimt. Þá sagði hann mikilvægt að RÚV færi af auglýsingamarkaði. Hann spurði jafnframt Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, hvort hún sæi fyrir sér möguleika til að jafna stöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart erlendum stórfyrirtækjum sem herjuðu á auglýsingamarkað.
Í svari sínu vísaði Lilja til skýrslu nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla sem birt var í morgun og sagði að hún yrði höfð til hliðsjónar í vinnu við að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla. Það væri vinna sem allir flokkar myndu koma að. Sagði hún niðurstöður skýrslunnar í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar.
Í skýrslunni leggur nefndin meðal annars til að ríkissjóður endurgreiði 25 prósent af framleiðslukostnaði einkarekinna fjölmiðla við fréttir og fréttatengt efni á Íslandi, að RÚV fari af auglýsingamarkaði og að virðisaukaskattur á sölu og áskriftum á rafrænu formi og af hljóð- og myndefni eftir pöntun, verði 11 prósent.
Sagði Lilja standa til að útfæra breytingar á skattaumhverfi fjölmiðla og að fyrst yrði farið í að útfæra tillögur hvernig lækka mætti virðisaukaskatt. Hún sagði að kostnaðarmeta þyrfti áhrif efnisatriða í skýrslunni og að ef taka ætti RÚV af auglýsingamarkaði þá þyrfti að huga að mótvægisaðgerðum.