„Segja heimsk, útlensk hóra og tussa“

Sögurnar lýsa margar hverjar fordómum, mismunun og marvissu niðurbroti.
Sögurnar lýsa margar hverjar fordómum, mismunun og marvissu niðurbroti.

„Þau meiða mig ekki með höndum en með orðum. Þau segja stundum heimsk, útlensk hóra og tussa.“ Svona lýsir ein kona kona af erlendum uppruna því andlega ofbeldi sem hún má búa við á vinnustað sínum hér á landi. Hún segir að þau séu aðeins þrjú á vinnustaðnum, hún og tveir karlmenn. Hún viti vel hvað þessi orð þýða en hún reyni að halda aftur af sér í vinnunni, hana langi oft til að öskra en hún geri það frekar heima hjá sér.

Konan er ein þeirra kvenna af erlendum uppruna sem hafa stigið fram og sagt sögu sína í krafti #metoo-byltingarinnar. Stofnaður var Facebook-hópur fyrir nokkrum dögum þar sem konurnar hafa deilt sögum af kynferðisofbeldi, áreitni og mismunum sem þær hafa orðið fyrir. Þær hafa sent frá sér yfirlýsingu og áskorun til samfélagsins þar sem þær krefjast sömu athygli og íslenskar kynsystur þeirra. Þá hafa einnig verið birtar 34 nafnlausar sögur. „Við óskum einskis ann­ars en að þær séu lesnar með virð­ingu fyrir því sem systur okk­ar, mæð­ur, dætur og bestu vin­konur hafa upp­lifað og að hver og einn les­andi spyrji sig hvort hann/hún hefði getað brugð­ist öðru­vísi við,“ segir meðal annars í yfirlýsingu þeirra. Kjarninn greindi fyrst frá.

Sögurnar eru mjög átakanlegar og lýsa margar hverjar fordómum, mismunun og markvissu niðurbroti af hálfu fólks í umhverfi kvennanna, meðal annars maka og vinnufélaga.

Vaknaði nakin í ókunnugu húsi eftir vinnu

Ein kona segir frá því að hafi hún hafi unnið á veitingastað hér á landi til að fjármagna háskólanám sitt. Hún hafi orðið að vinna mikið með náminu vegna mikils kostnaðar við uppihald og húsnæði. Henni leið þó illa á vinnustaðnum þar sem karlmenn voru stanslaust að segja við hana óviðeigandi hluti og grípa í hana eins og hún væri hundur. Svo gerðist það að hún vaknaði í ókunnugu húsi eftir að hafa verið á vakt í vinnunni kvöldið áður. Hún vissi ekki hvað hafði gerst og mundi ekkert.

Hún var nakin og leið eins og hún hefði orðið fyrir bíl. Fljótlega kom til hennar maður sem hún hafði aldrei séð áður og sagði henni að slaka á því yfirmaður hennar væri á leiðinni að sækja hana. Hann fór með hana grátandi úr húsinu og keyrði heim. Sagði að hann myndi borga henni aukalega vegna þess hvað gerðist. Svo hótaði hann henni að ef hún segði frá þvísem hefði gerst þá myndi hann koma í veg fyrir að hún gæti klárað háskólanámið. Konan sagðist ekki hafa treyst sér til að segja fjölskyldu sinni frá þessu því það myndi kalla yfir hana skömm. Hún óttaðist jafnframt að hún þyrfti að yfirgefa landið vegna þess að hún hefði framið glæpsamlegt athæfi.

„Þú verður að totta mig fyrst“

Önnur segir frá því að hringt hafi verið í hana frá leikskóla dóttur hennar og hún beðin um að sækja hana því hún væri orðið veik. Hún spurði yfirmann sinn hvort hún mætti fara en fékk þau svör að hún yrði fyrst að klára verkefnin í vinnunni. Hún vissi að það tæki hana langan tíma en hófst samt handa. Klukkutíma síðar var hringt aftur frá leikskólanum og henni sagt að dóttirin væri orðin mjög lasin. Ítrekaði konan það við yfirmann sinn að hún yrði að fara. Þá sagði hann: „Þú mátt fara en þú verður að totta mig fyrst.“ Konan sagði manninum ekki hafa stokkið bros. Hann hefði bara horft á hana og hún orðið hrædd. Að lokum hló hann, sagði að hún gæti farið en fengi ekki borgað fyrir síðari hluta dagsins.

Ein kona segir frá kynferðislegu ofbeldi sem hún varð fyrir þar sem hún starfaði við þrif heima hjá efnaðri fjölskyldu í Reykjavík. Húsbóndinn á heimilinu daðraði gjarnan við hana og kom með kynferðislegar athugasemdir á ensku. Konan sagðist hafa fundið hvernig hann fylgdist með hverri hreyfingu hennar þegar hún var að þrífa. Dag einn gekk áreitnin hins vegar lengra. Hann þrýsti henni upp að vegg með líkama sínum, hélt höndum hennar föstum, þefaði af höfði hennar og hálsi og sleikti svo á henni kinnina og niður á milli brjóstanna. Svo sagði hann: „Mig hefur alltaf langað að vita hvernig kona með þitt litarhaft bragðast.“ Skömmu síðar sakaði húsfreyjan á heimilinu hana um að hafa stolið úr eldhúsinu og var hún í kjölfarið rekin.

Neydd til kynlífs með mági sínum

Önnur lýsir andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu eiginmanns síns. Hún giftist eldri íslenskum manni og trúði því að hann væri góður. Hann var hins vegar drykkfelldur og fljótlega urðu rifrildi þeirra á milli daglegt brauð. Þau bjuggu í litlum bæ úti á landi og segist konan hafa verið algjörlega einangruð og niðurlægð á þessum tíma. Hún fékk ekki að sækja íslenskukennslu og mátti ekki vinna. Maðurinn hennar minnti hana ítrekað á hve mikið það hefði kostað að fá hana hingað til lands og hún væri hreinlega byrði fyrir hann. Eitt sinn hótaði hann henni og neyddi hana til að stunda kynlíf með bróður hans þegar þeir voru að drekka saman heima hjá þeim. Sagði hún mágkonu sína hafa vitað af þessu, en hún hefði ekki gert neitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert