Í vinnudeilu Flugfreyjufélags Íslands gegn Primera Air er ekki aðeins karpað um kaup og kjör, heldur einnig um rétt stéttarfélags á Íslandi til að hafa áhrif rekstur á flugfélags sem skráð er í öðru landi, í eigu móðurfélags sem einnig er skráð í öðru landi. Primera Air Nordic SIA hefur verið skráð í Riga í Lettlandi síðan árið 2014 og er móðurfélagið, Primera Travel Group, skráð í Danmörku.
Málið snýst um kaup og kjör starfsmanna Primera Air, en flugfélagið hefur ekki viljað gera kjarasamning við Flugfreyjufélagið og greiðir því ekki samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Flestir flugliðar hjá félaginu eru erlendir ríkisborgarar.
Primera Air Nordic flýgur nær daglega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll með sólþyrsta farþega á leið til Tenerife, Alicante, Mallorca og fleiri áfangastaða sunnar í álfunni í vor, sumar og fram á haust, en einnig á milli annarra ríkja í Evrópu. Fyrir félagsdómi sl. haust kom fram að meðallaun nýliða væru hátt í tvöfalt á við nýliða hjá Primera Air.
Deilan hefur staðið yfir með beinum hætti í hartnær ár, eða frá því að Flugfreyjufélagið samþykkti einróma að boða vinnustöðvun um borð í vélum flugfélagsins í maí á síðasta ári. Í kjölfarið stefndi Primera Flugfreyjufélaginu og krafðist þess að verkfallsboðunin yrði úrskurðuð ólögmæt. Sagðist Andri Már Ingólfsson, eigandi Primera Travel Group, þá ekki átta sig á því hverjir ætluðu í verkfall, þar sem Flugfreyjufélagið hefur aðeins samninga við þrjú flugfélög; WOW air, Icelandair og Air Iceland Connect.
„Þetta er eins og ég myndi boða verkfall í álverinu. Það er enginn starfsmaður í álverinu sem tengist mér eða fyrirtæki mínu og þar hef ég enga lögsögu,“ sagði Andri í samtali við Morgunblaðið síðasta sumar.
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari segir mjög brýnt að niðurstaða fáist um hvort fyrirtækið sé á íslenskum vinnumarkaði eða ekki. „Á meðan ágreiningurinn er uppi gengur illa að ná samningi eða leysa deiluna,“ segir Bryndís. Hún segir að hliðstæð kjaradeila hafi ekki komið upp síðan hún tók við embættinu um mitt ár 2015.
Næsti fundur í deilunni er 7. febrúar næstkomandi en fulltrúar Primera Air hafa hingað til ekki mætt á boðaða fundi í deilunni þar sem þeir telja sig ekki eiga að semja um kjör við flugliða hér á landi.
Alþýðusamband Íslands hefur staðið með Flugfreyjusambandinu í baráttunni og lengi kallað að aðkomu stjórnvalda að málinu þar sem flugfélagið hafi ekki virt réttindi flugliða félagsins að mati samtakanna. Í greinargerð sem Magnús Norðdahl, yfirlögfræðingur ASÍ, lagði fyrir félagsdóm fyrir hönd Flugfreyjufélagsins kom m.a. fram að Primera Air hefði starfsstöð hér á landi, og hér giltu íslensk lög og réttarreglur.
Í greinargerðinni kemur fram að á þeim tíma sem flugliðar Primera Air dveljist hér á landi, sex til átta vikur í senn, þá hefjist vinna og endi á Íslandi. Verkstjórn og allt skipulag vakta og vinnu miði að því að svo sé. Hér á landi hafi flugliðarnir húsnæði á vegum Primera Air, þar sem þeir taki út hvíld og njóti frístunda.
Kom enn fremur fram í greinargerðinni að meðallaun nýliða hjá íslensku flugfélögunum væru á bilinu 405 til 413 þúsund krónur á mánuði en aðeins 216 þúsund krónur í heildarlaun hjá Primera Air, sem verktakalaun.
Félagsdómur féllst á rök Primera Air í málinu um að verkfallið hefði verið boðað með ólögmætum hætti, en tveir af fimm dómurum félagsdóms skiluðu sératkvæði um að þeir töldu að formsatriði boðunar hefði verið uppfyllt en tóku að öðru leyti ekki afstöðu í málinu.
Í gær tilkynnti Flugfreyjufélagið um að boðað yrði til verkfalls á háannatíma hjá Primera Air, þar sem var sérstaklega tilgreint að tímasetningin yrði valin þannig að hún kæmi til með að valda fyrirtækinu sem mestum vandræðum. Ákvörðunin var tekin á fundi stjórnar og trúnaðarráðs sem mun undirbúa verkfallið áður en tillaga um vinnustöðvun verður borin undir félagsmenn.
„Við njótum stuðnings aðildarfélaga ASÍ á Suðurnesjum, Norræna og evrópska flutningamannasambandsins,“ segir Berglind Hafsteinsdóttir, formaður FFÍ, í samtali við mbl.is. „Við erum að standa vörð um okkar starfsstétt og þau lágmarkskjör sem gilda um hana.“
Spurð hvort íslenskir flugliðar séu hugsanlega að verja sig fyrir ófyrirséðum flutningum íslensku flugfélaganna í framtíðinni segir Berglind svo einnig vera. „Það er verkefni stéttarfélagsins að standa vörð um kaup og kjör og vernda starfsstéttina,“ segir hún.
Berglind segir nákvæma tímasetningu eða framkvæmd verkfallsins ekki liggja fyrir, en tíminn framundan verður nýttur til að þrýsta á stjórnvöld til að aðhafast í málinu, segir hún. Þar vísar hún meðal annars til Vinnumálastofnunar, en stofnunin hefur skoðað málefni Primera Air Nordic reglulega frá árinu 2015.
Unnur Sverrisdóttir, aðstoðarforstjóri Vinnumálastofnunar, segir í samtali við mbl.is að stofnunin hafi enn á ný erindi frá ASÍ vegna Primera Air. Hún vildi þó ekki tjá sig um hvort eitthvað nýtt hefði komið fram í málinu sem kynni að hafa áhrif á afstöðu stofnunarinnar, en segir að hingað til hafi VMST ekkert aðhafst vegna ónógra gagna, þ.e. komist að þeirri niðurstöðu að starfsemin falli ekki undir lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og kjör starfsmanna þeirra, og ekki heldur undir lög um starfsmannaleigur.
„Þegar við höfum tekið afstöðu í þessu höfum við sagt að svo stöddu, við höfum aldrei lokað þessu máli. Hingað til höfum við ekki haft næg gögn til að aðhafst í málinu,“ segir Unnur.
Meðal þess sem Primera Air hefur bent á í málinu er að félagsmenn Primera Air séu ekki í Flugfreyjusambandi Íslands. Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ, segir í samtali við mbl.is að Flugfreyjusambandið sé opið öllum flugliðum á Íslandi og félagatalið innihaldi viðkvæmar upplýsingar svo Flugfreyjusambandinu sé ekki unnt að gefa upp hvort starfsmenn Primera séu aðilar að sambandinu.
Spurður hvort þessi deila eigi sér fordæmi nefnir hann deilur Ryanair við dönsk systursamtök Flugfreyjusambandsins. „Danska regluverkið er fyrirmynd að því íslenska og þar var kristaltært að verkfallsboðun þarf ekki að vera bundin við félagsaðild,“ segir Halldór.
Spurður hvernig framkvæmd verkfallsins verði segir Halldór það eiga eftir að koma í ljós. „Í tilfellinu með Ryanair lá fyrir stuðningsyfirlýsing annarra félaga sem ætluðu að stöðva afgreiðslu til vélanna. Þegar skollið er á löglegt verkfall er öðrum félögum heimilt að grípa til stuðningsaðgerða,“ segir hann og má því úr því lesa í ljósi stuðnings við Flugfreyjufélag Íslands að verkfallið gæti verið bundið við þau félög sem lýst hafa yfir stuðningi við verkfallsaðgerðir FFÍ.