„Þennan dreng þekki ég. Hann er búinn að reyna að komast ítrekað um borð í gámaskip til að halda áfram flótta. Til að verða ekki sendur til heimalandsins. Þar bíður hans ekkert.“
Þetta segir Ylfa Mist Helgadóttir, sjúkraliði í Bolungarvík, á Facebook-síðu sinni um ungan hælisleitanda frá Marokkó sem varð fyrir hrottalegri líkamsárás á Litla-Hrauni á þriðjudag, en fóstursonur hennar kom með unga manninum til landsins árið 2016.
„Þeir koma saman með Norrænu árið 2016 og þeir fara báðir eftir því sem ég best veit í aldursgreiningu,“ segir Ylfa Mist í samtali við mbl.is.
„Minn fóstursonur er greindur þar 16 ára gamall en hinn fær þá greiningu að hann sé orðinn 18 ára. Því er nú svolítið merkilegt að hann sé sagður 18 ára í fjölmiðlum núna, því hann hefur þá verið 18 ára síðan árið 2016, sem er dálítið spes,“ segir Ylfa.
„Samkvæmt skilgreiningu kerfisins er hann auðvitað orðinn 18 ára, en sjálfur segir hann að hafi ekki orðið 18 ára fyrr en í desember og ég trúi honum. Ég hef hitt hann og borðað með honum og þetta er bara strákur,“ segir Ylfa. Hún segist ekki geta séð neinn aldursmun á drengnum sem varð fyrir árásinni og fóstursyni sínum.
Unga manninum var sem áður segir synjað um dvalarleyfi og hann sendur í fangelsi eftir að hafa gert ítrekaðar tilraunir til að komast úr landi með gámaskipum, áður en hann yrði sendur úr landi af yfirvöldum.
„Það sem hann hefur til saka unnið er ekki nauðgun, ekki ofbeldi, ekki morð. Hann hefur reynt að bjarga framtíð sinni og horfum með því að komast úr landinu sem hefur hafnað honum,“ segir Ylfa.
Drengurinn hefur verið í fangelsi síðan í nóvember, fyrst á Hólmsheiði og svo á Litla-Hrauni. Ylfa hefur sent Fangelsismálastofnun bréf og óskað eftir því að fá heimsækja hann ásamt fóstursyni sínum, en ekki fengið svör.
Hún segir forkastanlegt og ógeðslegt að drengurinn verði fyrir hrottalegri árás í umsjá ríkisstofnunar.
„Eitthvað þarf að gera í þessu. Það er fáránlegt að bera ábyrgð á unglingsstrák og svo er honum misþyrmt og svörin eru bara: „Við reynum að lágmarka ofbeldi í fangelsum.“.“
Ylfa hefur fengið mikil viðbrögð við Facebook-færslunni sem hún setti inn í gærkvöldi.
„Það er alveg merkilegt, ég er búin að vera í símanum í allan dag vegna þess að það er fullt af fólki að hringja og skrifa sem vill hjálpa og reyna að aðstoða hann við að eignast einhverja framtíð hérna. Svo er bara spurning hvort fólk fái leyfi til þess,“ segir Ylfa.
Hún segir að drengurinn sem varð fyrir árásinni á Litla-Hrauni og fóstursonur sinn hafi komið úr svipuðum aðstæðum og einungis komið hingað til lands í leit að mannsæmandi lífi.
Fóstursonur hennar er nú í menntaskóla – í fyrsta sinn í námi síðan hann var níu ára gamall.
„Hann er á fullu að reyna að læra íslensku og hann hefur séns sem hinn hefur ekki. Það eina sem þeir vilja er tækifæri.
Þetta er strákur sem er búinn að ferðast um allan hnöttinn, sem sýnir að hann er úrræðagóður og duglegur. Erum við of mörg hérna?“ spyr Ylfa, sem segist ekkert skilja í því hvernig ungur maður í leit að tækifærum hérlendis endi á Litla-Hrauni, þar sem honum sé misþyrmt í umsjá ríkisins.
Facebook-færslu Ylfu má lesa hér að neðan.
Uppfært: Fréttin hefur verið uppfærð, en í upprunalegri útgáfu hennar var haft eftir Ylfu að drengurinn yrði ekki 18 ára fyrr en í febrúar. Hið rétta er að hann varð 18 ára í desember, samkvæmt Ylfu.