Leikskólar enn ekki fullmannaðir

Enn á eftir að manna nokkrar stöður í leikskólum borgarinnar, …
Enn á eftir að manna nokkrar stöður í leikskólum borgarinnar, miðað við þau börn sem hafa fengið vistun. mbl.is/Árni Sæberg

Þann 22. janúar síðastliðinn átti enn eftir að ráða í 28,3 stöðugildi í leikskólum borgarinnar, 11,1 stöðugildi í grunnskólum og 27,3 stöðugildi í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum.

Í leikskóla borgarinnar vantar enn í tvö stöðugildi deildarstjóra, 14 stöðugildi leikskólakenna eða starfsfólks á deild, 12 stöðugildi í stuðning og 0,3 stöðugildi í annað. Samtals á eftir að ráða í 1,95 prósent stöðugilda í leikskólum Reykjavíkurborgar. Miðast þessar tölur við þau börn sem eru í vistun.

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir þessar tölur þó ekki segja alla söguna, enda hefur ekki verið fyllt í öll laus pláss í leikskólum borgarinnar. Hún lagði fram bókun fyrir hönd Sjálfstæðismanna á fundi skóla- skóla og frístundaráðs í vikunni vegna málsins.

„Ljóst er að leikskólar og frístundaheimili eru enn þá undirmönnuð. Í minnisblaði kemur fram að enn vanti í 28 stöðugildi á leikskólum en ekki er tekið með í reikninginn hversu marga starfsmenn vanti ef börn væru tekin inn í þau 176 lausu pláss sem eru á leikskólunum. Ef þau væru meðtalin vantar í um 44 stöðugildi,“ segir Marta.

Eitthvað hefur þó þokast í ráðningum starfsfólks frá því í desember því þá átti eftir að ráða í 2,17 prósent stöðugilda.

22 börn bíða eftir að komast inn á frístundaheimili 

Í grunnskólana vantar núna í 4 stöðugildi kennara, 3,1 stöðugildi stuðningsfulltrúa, 3 stöðugildi skólaliða og 1 stöðugildi í stuðning. Samtals á eftir að ráða í 0,60 prósent stöðugilda í grunnskólum borgarinnar og er staðan því aðeins betri en í desember þegar átti eftir að ráða í 1,13 prósent stöðugilda.

Í frístundaheimili/sértækar félagsmiðstöðvar vantar 56 starfsmenn í 27,3 stöðugildi, en yfirleitt er um 50 prósent störf að ræða. Af 27,3 stöðugildum sem þarf að ráða í eru 4,3 stöðugildi með fötluðum börnum og ungmennum og eru það 9 starfsmenn. 

Þann 22. janúar síðastliðinn hafði verið sótt um dvöl á frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum fyrir 4.366 börn, af þeim eru 4.344 komin með vistun og njóta börn með sérþarfir og yngstu börnin forgangs. Önnur eru tekin inn í samræmi við umsóknartíma. Á biðlista eru núna  22 börn. Marta segir að bregðast verði strax við þessu ástandi.

„Enn eru 22 börn á biðlista á frístundaheimilum og enn vantar í 5 stöðugildi á sértækum félagsmiðstöðvum fyrir börn með sérþarfir sem hefur það í för með sér að þau fá ekki fulla vistun eða einungis fjóra daga vikunnar í stað fimm. Það er langt liðið á veturinn og enn eru ekki öll börn komin með pláss og sum með skerta þjónustu. Þetta getur ekki gengið lengur svona og það verður að bregðast betur við þessu ástandi og leysa  vandann strax.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert