Samtökin '78 og Reykjavíkurborg hafa gert með sér nýjan fræðslu- og þjónustusamning. Í fræðslusamningnum er kveðið á um að Samtökin '78 sinni hinsegin fræðslu í öllum grunnskólum Reykjavíkurborgar eins og samið var um árið 2014. Til viðbótar var samið um sérstaka hinsegin fræðslu til starfsfólks leikskóla höfuðborgarinnar. Frá þessu segir í tilkynningu frá Samtökunum '78 og á vefsíðu samtakanna.
„Í nýjum samningi við Hafnarfjörð, en þetta er í annað skipti sem við semjum við bæinn, er nú kveðið á um að starfsfólk leikskóla geti fengið fræðslu frá Samtökunum '78. Í nýjum samningi við Reykjavíkurborg er þessi möguleiki einnig til staðar, þ.e. að allt starfsfólk í leikskólum Reykjavíkurborgar geti sótt fræðslu til okkar. Markmiðið er að fræða um fjölbreytt fjölskylduform, kynvitund og kyntjáningu og búa leikskólakennara undir að börn geti verið með allskonar í kyntjáningu og kunni í framhaldinu að skapa börnunum svigrúm til að tjá kyn sitt og persónuleika. Það er til að það sé ekki verið að setja börnin í einhver mót strax,“ segir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78, í samtali við Morgunblaðið.
„Þetta snýst um hvernig við komum fram við einstaklingana. Við höfum t.d. fengið símtöl frá starfsmönnum leikskóla um hvað á að gera þegar börn sýna ákveðna kyntjáningu eða kynvitund. Við erum bara föst sem samfélag í tvíhyggju um að karlar eigi að sýna karllæga hegðun og konur kvenlæga hegðun. En þetta snýst um að leyfa öllum að vera eins og þeir eru, að fólki líði vel í eigin skinni, börnum og fullorðnum.“
Fréttin í heild sinni birtist í Morgunblaðinu.