Á annað hundrað björgunarsveitarmenn leita nú að Ríkharði Péturssyni í og við Selfoss. Ekkert hefur spurst til Ríkharðs frá því á þriðjudag. Leit hófst í birtingu í morgun og það stendur til að leita þar til myrkur skellur á síðdegis.
„Það er búið að skipuleggja leitarsvæði sem er þéttriðið net um Selfoss og nágrenni, þar á meðal um Ölfusá og niður með henni. Og hópanir eru núna búnir að vera að leita í sirka fimm klukkustundir,“ segir Jónas Guðmundsson, talsmaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Björgunarsveitarmenn nota m.a. dróna við leitina og sérþjálfaða hunda. Menn sigla einnig um á bátum og aka um á fjórhjólum.
Lögreglan hefur biðlað til íbúa að leita í görðum og láta vita ef einhverjar vísbendingar finnast. „Björgunsveitarmenn fara líka í garðana að leita, banka upp á og fá að kíkja í garðskýli og annað slíkt. En það er alltaf betra ef heimamenn gera það sjálfir; þeir þekkja það best,“ segir Jónas.
„Það verður leitað fram í myrkur og vonandi tekst að loka öllum leitarsvæðum, og framhaldið verður metið eftir það,“ segir Jónas.
Ríkharður, sem er meðalmaður á hæð, grannvaxinn, fór frá heimili sínu að Eyrarvegi 46 á Selfossi um kl. 16 á þriðjudag en ekki er vitað um ferðir hans eftir það. Hann var þá klæddur í svartar buxur, svarta úlpu og svarta húfu með gulri áletrun (MAX).
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Ríkharðs eftir kl. 16 síðastliðinn þriðjudag eru beðnir að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi í síma 444-2000, 112 eða á einkaskilaboðum á Facebook.