Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að fara í framkvæmdir við að koma fyrir nýjum innsiglingarvita við Sæbraut. Reiknað er með að þessi staður verði fjölsóttur af ferðamönnum, líkt og Sólfarið er í dag.
Áætlaður kostnaður við verkið er 75 milljónir króna og þar af munu Faxaflóahafnir greiða 25 milljónir. Faxaflóahafnir munu kosta smíði vitans, greiða fyrir lagnir og taka þátt í kostnaði við yfirborðsfrágang.
Fram kemur í minnisblaði Ámunda Brynjólfssonar, skrifstofustjóra framkvæmda og viðhalds, að í verkinu felist að koma fyrir grjótvörn og fyllingu fyrir nýjan innsiglingarvita við Sæbraut á móts við Höfða. Framkvæmdirnar mynda stofn til gatnaleigu. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í febrúar n.k. og að þeim ljúki í júní í sumar.