Leit hófst á ný í birtingu að Ríkharði Péturssyni, sem saknað hefur verið frá því á þriðjudag er hann fór af heimili sínu á Selfossi. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, segir leitina í dag ekki verða eins umfangsmikla og síðustu daga, en þó muni um 20-30 manns koma að henni.
Á annað hundrað björgunarsveitarmenn leituðu Ríkharðs um allt þéttbýli á Selfossi í gær, án árangurs.
Oddur segir að í dag verði gengið eftir bökkum Ölfusár og drónum flogið um svæðið, en grunur leikur á að Ríkharður hafi lent í ánni.
Lögreglurannsókn á mannshvarfinu heldur áfram, en Oddur segir enga vísbendingu um að neitt refsivert hafi átt sér stað.