Frá og með deginum í dag geta nemendur Háskólans í Reykjavík sótt sér sálfræðiþjónustu innan háskólans. Í tilkynningu frá skólanum segir að í þjónustunni felst sálfræðiviðtal og sex vikna hópmeðferð við þunglyndi og kvíða fyrir þá nemendur sem þess óska. Þjónustan er veitt af sálfræðisviði HR í samstarfi við náms- og starfsráðgjöf háskólans.
Þessa vikuna stendur skólinn fyrir Geðheilbrigðisviku þar sem boðið er upp á fræðslu í hádeginu um ýmis viðfangsefni, svo sem svefn og samfélagsmiðlanotkun.
Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og á fyrirlestri í hádeginu í dag, mánudag, kom fram að stór hluti háskólanema á Íslandi glímir við einkenni kvíða og þunglyndis. „Sú hópmeðferð sem nemendum mun standa til boða er gagnreynd ósérhæfð hugræn atferlismeðferð við þunglyndi og kvíða. Sýnt hefur verið fram á góðan árangur meðferðarinnar á Íslandi, meðal annars á heilsugæslustöðvum. Meðferðin stendur yfir í sex vikur, samtals í 12 klukkustundir auk heimaverkefna,“ segir í tilkynningunni.
Þeim nemendum sem eiga við annars konar vanda að stríða en þunglyndi og kvíða verður vísað á þjónustu sem hentar þeim innan heilbrigðiskerfisins.
„Háskólinn í Reykjavík veitir nemendum sínum ekki aðeins góða menntun, heldur er lögð áhersla á að nemendur okkar vaxi og dafni sem einstaklingar á meðan þeir eru hér í námi ogég er afar stoltur af því að geta kynnt aukið aðgengi nemenda okkar að sálfræðiþjónustu,“ er haft eftir Ara Kristni Jónssyn, rektor HR, í tilkynningunni.
Sonja Björg Jóhannsdóttir, formaður Stúdentafélags HR, segir sálfræðiþjónustu vera nauðsynlega viðbót viðbót við þjónustu fyrir háskólanema og stórt skref í átt að betri geðheilsu ungmenna.
„Það er frábært að sjá HR stíga þetta mikilvæga skref sem kemur bæði nemendum til góða og háskólanum í heild,“ er haft eftir Sonju Björgu.
Nemendur sem hafa áhuga á að nýta sér þjónustuna geta sent tölvupóst í netfangið salfraedithjonusta@ru.is eða leitað til náms- og starfsráðgjafar HR sem mun vísa þeim sem taldir eru þurfa eða vilja fá sálfræðiþjónustu í viðtal hjá sálfræðingi.