„Þetta gekk ótrúlega vel, við vorum með fjöldann allan af undirskriftum og erum búin að skila þeim. Við vonum að hlutirnir gangi vel og að þetta verði tekið gilt,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir.
Hún mætti á skrifstofu Eflingar í dag ásamt þeim Kolbrúnu Valvesdóttur og Sigurði H. Einarssyni með ríflega 600 undirskriftir til stuðnings framboðslista undir hennar forystu til stjórnar Eflingar. Kolbrún er einnig á framboðslistanum, sem telur átta manns með Sólveigu, en Sigurður ekki.
Framboðsfrestur rann út klukkan 16 og skila þurfti undirskriftum fyrir þann tíma vegna mótframboðs til stjórnar Eflingar.
Sólveig segir framboðsfrestinn hafa verið stuttan og að lítill tími hafi verið til að fara af stað með framboðið. Byrjað var að safna undirskriftum á föstudaginn.
„Það gekk ekkert alltof vel fyrst að fá svör frá Eflingu um hvernig við ættum að gera þetta. Þau voru ekkert undir það búin að þetta myndi gerast og svo hefur þetta ekki gerst áður, þannig að það tók tíma að fá maskínuna í gang,“ segir hún. „Nú vonum við það allra besta og að þetta átak sem margir tóku þátt í verði metið.“