Talið að Ríkharður hafi farið í ána

Ríkharður Pétursson er fæddur árið 1969. Hann sást síðast í …
Ríkharður Pétursson er fæddur árið 1969. Hann sást síðast í verslun á Selfossi síðdegis á þriðjudag í síðustu viku.

Skipulagðri leit að Ríkharði Péturssyni hefur verið hætt. Ölfusá verður þó áfram vöktuð en leitarhundar höfðu fundið slóð hans liggja að ánni og því hefur verið leitað í henni og á bökkum hennar síðustu daga. Lögreglan telur nú flest benda til þess að Ríkharður hafi farið í ána.

Síðast sást til Ríkharðs síðdegis á þriðjudag fyrir tæpri viku. Þá sást hann í verslun á Selfossi. Í kjölfarið sást hann á eftirlitsmyndvélum í iðnaðarhverfinu og svo við hús um bænum um klukkan 18.30 um kvöldið. Síðan hefur ekkert til hans spurst.

Umfangsmikil leit hefur verið gerð að Ríkharði síðustu daga, bæði innanbæjar á Selfossi sem og við Ölfusá. Á annað hundrað björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni á föstudag. Henni var svo áframhaldið um helgina en skipulagðri leit hefur nú verið hætt. „Að því er við teljum er flest sem bendir til þess að hann hafi farið í ána,“ segir Garðar Már Garðarsson, varðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, sagði í samtali við mbl.is á laugardag að engar vísbendingar væru um að neitt refsivert hefði átt sér stað. 

Lögreglan hóf að lýsa eftir Ríkharði á fimmtudag. Í þeirri tilkynningu kom fram að hann er fæddur árið 1969, hefði farið frá heimili sínu að Eyrarvegi á Selfossi á þriðjudag og að ekkert væri vitað um ferðir hans eftir það.

Nokkrar vísbendingar bárust í kjölfarið, m.a. um viðkomu hans í verslun í bænum eins og fyrr segir.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert