Þriðjungur háskólanema með einkenni þunglyndis

Sálfræðingarnir Andri Haukstein Oddsson og Halldóra Björg Rafnsdóttir. Rannsókn þeirra …
Sálfræðingarnir Andri Haukstein Oddsson og Halldóra Björg Rafnsdóttir. Rannsókn þeirra sýndi að um þriðjungur háskólanema á Íslandi mælist með þunglyndi og tæp 20% með einkenni kvíða. Ljósmynd/Aðsend

Um þriðjungur háskólanema á Íslandi mælist með þunglyndi og tæp 20% með einkenni kvíða. Þetta er meðal þess sem fram kemur í rannsókn sálfræðinganna Andra Haukstein Oddssonar og Halldóru Bjargar Rafnsdóttur.

„Við könnuðum geðheilbrigði nemenda í þremur stærstu háskólum Íslands — Háskóla Íslands, Háskóla Reykjavíkur og Háskólanum á Akureyri,“ segir Andri og kveður þau sérstaklega hafa skimað fyrir einkennum þunglyndis og kvíða.

Niðurstaðan var sú að 34,4% nemenda mældust yfir klínískum mörkum þunglyndis og 19,8% mældust yfir klínískum mörkum kvíða.

Rannsóknin var meistaraverkefni þeirra við Háskóla Reykjavíkur á síðustu önn og var kynnt á Geðheilbrigðisdögum HR í dag. Auk þess að skima fyrir þunglyndi og kvíða þá könnuðu þau einnig tengsl sjúkdómanna við mat nemanna á lífsgæðum, sem og aðgengi og viðhorf til sálfræðiþjónustu og tengsl fordóma og þess hve líklegt fólk væri til að leita sér aðstoðar.

Kröfurnar miklar og álag fylgir náminu

Alls tóku 2.745 nemendur þátt í rannsókninni og var meðalaldur þátttakenda 28 ár.

Andri segir niðurstöðurnar nokkuð sambærilegar við það sem er að gerast erlendis. „Þróunin er þó sú að einkennin virðast fara versnandi,“ segir hann. „Það er oft litið á háskólanemendur sem ákveðinn forréttindahóp, en engu að síður þá er þetta mjög krefjandi umhverfi sem nemendur eru í. Kröfurnar eru miklar og það fylgir ýmiskonar álag náminu.“

Það kom þeim Halldóru Björg nokkuð á óvart að að yngri þátttakendur voru ólíklegri til að leita sér aðstoðar en þeir sem eldri voru. „Fordómar voru svo sannarlega að hamla því að fólk leitaði sér aðstoðar,“ segir hann og kveður suma þannig hafa óttaðist neikvætt mat annarra á sér. „Það er dapurlegt að fólk sé enn að upplifa skömm í tengslum við geðsjúkdóma árið 2018.“

Annars hafi viðhorf nemendanna til sálfræðiþjónustu almennt verið mjög jákvætt, þó að margir hafi nefnt að kostnaðurinn við sálfræðiaðstoð væri líklegur til að hindra þá í að leita aðstoðar. Töldu þannig alls 25% aðspurðra ólíklegt að þeir myndi leita sér aðstoðar.

Þarf að grípa snemma inn í 

Þá kom fram í rannsókninni að einstaklingar sem meta lífsgæðin sín verri eru líklegri til að vera með verri einkenni þunglyndis og kvíða og það sama gilti um þá sem voru með fjárhagsáhyggjur.

3,7% þátttakenda sýndu einkenni alvarlegs þunglyndis, en 5,5% einkenni alvarlegs kvíða.

„Sem er töluverður fjöldi,“ segir Andri og kveður áhyggjuefni að þriðjungur háskólanema sýni einkenni andlegra veikinda. „Þess vegna þarf að grípa inn í snemma og veita þessu fólki aðstoð.“ Rannsóknir sýni að þunglyndi og kvíði hafi gífurleg áhrif á frammistöðu í námi og auki lýkur á brottfalli. Það sýni sig m.a. í því að mun færri á framhaldsstigi háskólanáms sýni þessi einkenni. „Það útskýrist fyrst of fremst af því að þeir sem upplifa þetta í grunnnámi, þeir halda síður áfram námi á framhaldsstigi samkvæmt erlendum rannsóknum. Þetta er því eitthvað sem þarf að styðja við.“

Andri segir háskólana hafa sýnt rannsókn þeirra mikinn áhuga. „Háskólinn í Reykjavík vildi fá okkur sérstaklega til að kynna þessar niðurstöður,“ segir hann og kveður forstöðumenn sálfræðisviðs skólans hafa kynnt nemendum að fyrirlestri loknum að nú ætti að bjóða upp á sálfræðiþjónustu í HR.

Frétt mbl.is: Nemendum HR boðin sálfræðiþjónusta

Þá hafi Háskóli Íslands sýnt áhuga á að fá þau til að halda erindi þar. „Við erum búin að fá talsvert af símtölum frá fólk sem er að sýna þessu áhuga,“ segir hann og kveður standa til að birta rannsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert