Grindavíkurvegur verður lokaður um óákveðinn tíma frá Nesvegi að Bláalónsvegi og er hjáleið um Bláalónsveg en rúta fór út af veginum í morgun. Að sögn lögreglu var bílstjórinn einn í rútunni og slapp hann ómeiddur. Mjög bratt er á þeim stað sem rútan rann út af í hálku og þar sem rútan er stór getur tekið allt að klukkustund að ná henni upp á veg, að sögn lögreglu.
Það eru hálkublettir á höfuðborgarsvæðinu. Hálka og éljagangur er á Reykjanesbraut. Snjóþekja er nokkuð víða á Reykjanesi. Þæfingsfærð og éljagangur er frá Þorlákshöfn að Krýsuvík. Snjóþekja, skafrenningur og éljagangur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Á Suðurlandi er hálka eða snjóþekja og snjókoma.
Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja. Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja. Skafrenningur er nokkuð víða á fjallvegum. Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir. Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir þó er greiðfært frá Breiðdalsvík að Höfn.
Á Suðuausturlandi er greiðfært frá Höfn að Kvískerjum en hálka eða snjóþekja þar fyrir vestan. Þæfingsfærð og snjókoma er á Mýrdalssandi og á Reynisfjalli.