Grindavíkurvegur lokaður að hluta

Grindavíkurvegur verður lokaður um óákveðinn tíma frá Nesvegi að Bláalónsvegi …
Grindavíkurvegur verður lokaður um óákveðinn tíma frá Nesvegi að Bláalónsvegi og er hjáleið um Bláalónsveg. Mynd úr safni.

Grindavíkurvegur verður lokaður um óákveðinn tíma frá Nesvegi að Bláalónsvegi og er hjáleið um Bláalónsveg en rúta fór út af veginum í morgun. Að sögn lögreglu var bílstjórinn einn í rútunni og slapp hann ómeiddur. Mjög bratt er á þeim stað sem rútan rann út af í hálku og þar sem rútan er stór getur tekið allt að klukkustund að ná henni upp á veg, að sögn lögreglu. 

Það eru hálkublettir á höfuðborgarsvæðinu. Hálka og éljagangur er á Reykjanesbraut. Snjóþekja er nokkuð víða á Reykjanesi. Þæfingsfærð og éljagangur er frá Þorlákshöfn að Krýsuvík. Snjóþekja, skafrenningur og éljagangur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Á Suðurlandi er hálka eða snjóþekja og snjókoma.   

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja. Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja. Skafrenningur er nokkuð víða á fjallvegum. Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir. Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir þó er greiðfært frá Breiðdalsvík að Höfn.

Á Suðuausturlandi er greiðfært frá Höfn að Kvískerjum en hálka eða snjóþekja þar fyrir vestan. Þæfingsfærð og snjókoma er á Mýrdalssandi og á Reynisfjalli.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert