Auðvelt „að flýja“ í snjalltækjum

Snjalltækin eru víða.
Snjalltækin eru víða. AFP

„Af hverju er svona erfitt að leggja frá sér símann?“ spurði Þorlákur Karlsson, dósent við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík, á málþingi um áhrif snjalltækja í HR í dag. Yfirskrift málþingsins var fíkn eða frelsi. Sálræn og félagsleg áhrif snjalltækja, samfélagsmiðla og tölvuleikja.

Þorlákur sagði sálfræði hegðunar ekki geimvísindi, heldur væri hún miklu flóknari en svo. Hann vitnaði í rannsókn frá því í fyrra þar sem kemur fram að fólk verji að meðaltali tveimur klukkustundum á dag á samfélagsmiðlum.

„Ég er viss um að þessar tölur eru hærri á Íslandi,“ sagði Þorlákur en rannsóknin var gerð í 40 löndum en ekki hér á landi.

Auðvelt að fara í síma og þeir eru skemmtilegir

Hann benti á fjórar mikilvægar ástæður þess að fólk eyði jafn miklum tíma í snjallsíma og raun ber vitni. Það er margt skemmtilegt í símanum, það er auðvelt að fara í símann, fólk er oft að flýja frá einhverju og svo eru styrkingarhættir efnis í símanum mjög öflugir.

Þorlákur Karlsson.
Þorlákur Karlsson. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Með flóttanum á Þorlákur við að fólk leiti oft í símann þegar það er að gera eitthvað leiðinlegt. „Snjallsíminn er núna alltaf innan seilingar uppfullur af leikjum, skilaboðum, fréttum, „lækum“, hundamyndböndum, tónlist, myndum og fréttum af vinum og ættingjum og fleiru,“ sagði hann.

Erum ekki alltaf „að flýja“

Síminn væri þar með tilvalin leið til að flýja, ekki bara nám og vinnu heldur líka fjölskyldu og vini. „Við erum þó ekki alltaf í símanum „að flýja“ þó það sé mun meira um það en við gerum okkur grein fyrir,“ sagði Þorlákur.

„Ég var til að mynda á kaffihúsi um daginn og sá þar tíu manna hóp. Á einum tímapunkti voru nánast allir í símanum,“ sagði Þorlákur og velti því upp hvort samræður fólksins hefðu komist að endastöð eða hvort allir hefðu verið að flýja eitthvað.

Þarf að setja skýrar reglur um snjalltækjanotkun

Hann útskýrði styrkingarhætti á samfélagsmiðlum þannig að maður fái ekki alltaf styrkingu. Fólk fær styrkingu stundum og það er mun líklegra til að viðhalda þeirri tíðu hegðun að kíkja á símann heldur en ef það fengi alltaf styrkingu.

Þorlákur sagði morgunljóst að síminn og tækni tengd honum væri komin til að vera. Varðandi börn þurfi reglur að vera skýrar; til að mynda að vinna húsverk eða læra heima áður en það fær að hverfa í skjáheiminn.

„Það eru til „appir“ sem takmarka tíma á miðlum,“ sagði Þorlákur og bætti við að fínt væri að kíkja á slíkt eins og StayFocused og SelfControl.

Fullt var út úr dyrum á málþinginu sem fór fram …
Fullt var út úr dyrum á málþinginu sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík í hádeginu. mbl.is/Jóhann

Þurfum að vera góðar fyrirmyndir

Björn Hjálmarsson, barna- og unglingageðlæknir, vitnaði í Albert Einstein sem sagði að þegar tæknin tekur fram úr mannlegum samskiptum munum við eignast kynslóð af kjánum. „Hann hafði þetta í eintölu sem þýðir að við munum læra á þetta,“ sagði Björn og uppskar hlátur í salnum.

Hann benti á að foreldrar þyrftu að vera góðar fyrirmyndir fyrir börn í þessum efnum. „Það er glórulaust að banna börnum skjátæki ef við erum sjálf þar öllum stundum,“ sagði Börn.

Hann sagði að börn taki því sem höfnun þegar foreldrar líta á snjalltækin þegar þau eru að leika sér saman eða eiga gæðastund. „Án skjátækja erum við með betri nærveru fyrir börnin. Þau eru streituvaldandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert