Fjölmargir jarðskjálftar hafa mælst við Grímsey í nótt en þeir eru allir frekar litlir. Rólegt hefur verið í nótt á Bárðarbungusvæðinu og engin merki um gosóróa, segir Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Að sögn Bjarka á eftir að fara yfir jarðskjálftana í nótt en þeir eru flestir 1-2 að stærð. Talsverð skjálftavirkni var við Grímsey fyrir helgi en skjálftahrinur eru algengar á þessu svæði.
Líkt og fram kom á mbl.is í gærkvöldi mældist jarðskjálfti að stærð 4,9 í norðanverðri Bárðarbunguöskju klukkan 19:24. Skjálftinn er sá stærsti sem mælst hefur frá því að eldgosi lauk í Holuhrauni 28. febrúar 2015. Eldgosið stóð yfir frá 31. ágúst 2014.