Tveir kafarar komu hval til aðstoðar sem hafði synt upp í fjöru fyrir neðan HB Granda í Reykjavík fyrr í dag.
Um andarnefju var að ræða og að sögn annars kafarans, Sigurðar Arnar Stefánssonar, gekk furðuvel að koma henni út í sjóinn.
„Hún leit út fyrir að vera eitthvað slöpp. Svo kom eitthvað líf í hana og við náðum að ýta henni frá,“ segir Sigurður Arnar og tekur fram að hún sé enn í sjónum, rétt við fjöruborðið. „Hún er eitthvað villt greyið.“
Sigurður og hinn kafarinn, James Cameron, ætla að fylgjast með henni áfram ef ske kynni að hún lendir aftur uppi í klettum.
Spurður nánar út í sundið með andarnefjunni segir hann að erfitt hafi verið að koma henni út í sjóinn, enda dýrið stórt. Notuðu þeir ölduna við að koma henni áleiðis og tók verkið nokkrar mínútur.
Sigurður hefur áður komið hvölum til bjargar, síðast hrefnukálfi í Keflavíkurhöfn sem var fastur í neti, en hann hefur aldrei áður komist í kynni við andarnefju.
Starfsmenn Eldingar komu auga á andarnefjuna þegar þeir mættu til vinnu rétt fyrir hádegi í dag til að undirbúa næstu hvalaskoðunarferð.
Aldrei áður hafa þeir séð andarnefju svona nálægt bryggju í Reykjavíkurhöfn.
„Ég er búinn að starfa við hvalaskoðun í tíu ár og hef ekki orðið var við andarnefju á þessu svæði áður,“ segir Guðlaugur Ottesen, vaktstjóri Eldingar.
Meðfylgjandi myndband var tekið af starfsmanni Eldingar er andarnefjan var að svamla í Reykjavíkurhöfn.