Listinn hefði aldrei verið samþykktur

Sigríður Á. Andersen segist hafa viljað meta dómarareynslu frekar.
Sigríður Á. Andersen segist hafa viljað meta dómarareynslu frekar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að sér hafi orðið það ljóst eftir að hún bar tillögur hæfnisnefndar um skipan dómara í Landsrétt undir formenn allra flokka á þingi á síðasta ári að listinn yrði aldrei samþykktur. Henni hafi í raun verið gert það ljóst í samtölum við formennina.

Sigríður situr nú fyrir svörum á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem rætt er um ákvarðanir dómsmálaráðherra og verklag við vinnslu tillögu Alþingis um skipan dómara í Landsrétt. Fundurinn hófst á því að Sigríður hélt framsögu. Hún sagði að hún hefði efast um hlutlægt mat hæfnisnefndarinnar þar sem umsækjendum var gefin einkunn í excel-skjali. Taldi hún að svona mat yrði að einhverju leyti að vera huglægt.

Þegar hún fékk tillögur nefndarinnar í hendurnar fór hún yfir andmæli umsækjenda, sem hún sagði mörg hafa verið mjög vel unnin og rökstudd. Í ljósi þess að til stóð að leggja tillögurnar fyrir Alþingi og að þingið hefði ákvörðunarvald í málinu þótti henni réttast að ræða við formenn flokkanna á þingi. Hún vildi heyra þeirra sjónarmið um listann. „Það sem stóð upp úr var að mér varð ljóst að þessi listi yrði aldrei samþykktur á þingi, mér var gert það ljóst.“ Hún hafi því verið tilneydd til að gera breytingar.

Sigríður sagðist í kjölfarið hafa farið betur yfir andmæli umsækjenda og hlustað á sjónarmið þingmannanna. Hún ítrekaði að hún hefði verið hugsi yfir excel-skjalinu með matinu þar sem lá fyrir að sá einstaklingur sem var talinn fimmtándi hæfasti hafi verið með 0,025 hærri einkunn en sá sem var í sextánda sæti.

Sigríður sagði að hún hefi talið réttast að dómarareynsla yrði metin meira og segist ekki hafa heyrt það nokkurs staðar að það mat hafi verið ómálefnalegt. „Ég tók þá dómara sem höfðu áratugareynslu af dómarastörfum ég lagði þá að jöfnu við þá sem voru taldir hæfastir.“ Þá stóðu eftir 24 einstaklingar en ekki 15. Hún segir það sitt mat að hún hafi skoðað málið eins og hægt var og í kjölfarið gert þær tillögur sem hún gerði, en þar vék hún frá mati nefndarinnar í fjórum tilfellum. Hún benti jafnframt á að þingið hefði samþykkt hennar tillögur og að Alþingi bæri því ábyrgð á skipuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert