„Það var sjaldan sem að ég heyrði fólk kvarta,“ segir Sólrún María Ólafsdóttir sem fór sem sendifulltrúi Rauða krossins til að aðstoða í Karíbahafinu eftir að fellibyljirnir Irma og María fóru þar yfir síðasta haust.
Erfitt sé fyrir þá sem ekki þekkja að gera sér grein fyrir því hversu mikil áhrif það hefur þegar það er ekkert rafmagn, neysluvatn eða símasambandi. „Þegar húsin eru ýmist skemmd eða ónýt og fólk getur hvorki farið í búðir til að ná sé í mat, né í banka til að ná í fé. Þegar það eina sem að það getur gert er að reyna að bjarga sér um mat og vatn.“
Sólrún María starfaði á Antígva, Barbúda og Dóminíku í kjölfar þess að þær Irma og María fóru þar yfir sem 5. stigs fellibylir í september í fyrra og ollu gífurlegri eyðileggingu.
„Þetta var viðráðanlegt af því að þetta voru svo fáir, en þetta var líka erfitt af því að eyðilegging var svo mikil,“ segir Sólrún María sem flutti fyrirlestur um ástandið þar úti í húsakynnum Rauða krossins í morgun.
Um 100.000 manns búa á Antígvu, en ekki nema 1.600 manns á Barbúda. Eyjan var raunar úrskurðuð óbyggileg eftir að Irma fór þar yfir og allir íbúar fluttir yfir á Antígva. Segir Sólrún María um 80% allra bygginga hafa ýmist eyðilagst eða orðið fyrir miklum skemmdum, auk þess sem rafmagn hafi farið og skortur verið á drykkjarvatni. „Það má segja að eyjan hafi farið á hliðina,“ segir hún og kveður ekki nema á annað hundrað íbúa hafa verið búna að snúa heim aftur er hún kom aftur til Íslands í desember. „Flestir eru enn í búðum á Antíkva og það er ekki víst að allir muni snúa aftur heim.“
Um 71.000 manns búa á Dóminíku sem er jafnframt eitt fátækasta ríkið í Karíbahafinu og olli María miklum skemmdum þar er miðja fellibylsins fór yfir eyjuna 18. september. „Öll eyjan varð fyrir barðinu á fellibylnum og það er ekki til sá Dóminíkuíbúi sem ekki varð á einhvern hátt fyrir barðinu á fellibylnum,“ segir Sólrún María.
Á Dóminíku stórskemmdust ýmist eða eyðilögðust um 90% allra húsa. „Öll uppskera eyðilagðist líka á þessari landbúnaðareyju og eins skemmdist 75% regnskógarins,“ segir hún. „Allt sem var grænt á eyjunni fauk út á haf og þegar fyrstu hjálparstarfsmennirnir mættu þá var allt grátt.“ Sólrún María bætir við að meira að segja börkurinn hafi rifnað af trjánum og fokið í burt.
„Það var samt allt orðið mjög grænt aftur þegar ég fór í byrjun desember og gróðurinn virtist ótrúlega mikið vera að ná sér aftur.“ Engu að síður séu áhyggjur af því að sumar viðkvæmustu trjátegundanna kunni að vera glataðar fyrir fullt og allt. „Það var ekki alveg ljóst þegar ég fór hvort að svo væri.“
Flóð og aurskriður skemmdu þá vegi og brýr og gerðu samgöngur illfærar, auk þess að valda fleiri dauðsföllum en fellibylurinn sjálfur.
Eyjan var einnig rafmagns- og símasambandslaus, auk þess sem skortur var á neysluvatni. „Fólk áttar sig ekki endilega á því hvernig það er að vera í þessum aðstæðum og geta ekki hringt,“ segir Sólrún María.
Leitarþjónusta Rauða krossins var líka með með öðrum hætti af því að það var símasambandslaust. „Sjálfboðaliðar fóru um svæðið með gervihnattarsíma og buðu fólki að hringa í ættingja til að láta vita af sér,“ segir hún og útskýrir að gjallarhorn hafa verið notað til að láta vita af þjónustunni. „Því það var náttúrulega ekkert hægt að tilkynna það fyrirfram.“
Eftir að símasamband komst á fór fólk síðan að hafa samband við Rauða krossinn og óska upplýsinga um ættingja og vini sem það hafði ekkert heyrt frá. „Þetta var þá til dæmsi gamalt fólk og þeir sem voru veikir,“ bætir hún við og kveður leitarferðir hafa verið farnar í kjölfarið.
Enn voru margir týndir er Sólrún María hélt heim í desember. „Það var hætt að tala um þetta á einhverjum tímapunkti og ég veit ekki hvort að það var pólitískt,“ segir hún. Flestir hafi þó verið þeirra skoðunar að mun fleiri hafi látist í fellibyljunum en gefið hafi verið upp til þessa. „Það voru margir sem þekktu einhvern sem var enn saknað eða látinn, þetta er líka lítið samfélag og því mikið áfall.“
Sólrún María segir tvo þeirra Rauða krossliða sem unnu með þeim á Dóminíku hafa verið launaða starfsmenn, restin hafi verið sjálfboðaliðar. „Þeir höfðu líka misst heimili sín og vini en fóru samt beint að vinna í þessu. Maður varð hins vegar ekki var við það og það var ekki fyrr en seinna sem fólkið fór að segja manni sögu sína.“
Hún nefnir sem dæmi einn sjálfboðaliða sem kom leiður til vinnu einn daginn. „Hann hafði misst vin sinn og alla fjölskyldu hans í aurskriðu. Það var svo þennan dag, þremur vikum eftir að fellibylurinn fór yfir sem þeir höfðu verið að finna þau,“ segir Sólrún María. Fórnarlömb fellibyljanna hafi lengi verið að finnast og séu raunar mögulega enn að finnast.