Haförninn braggast og étur vel

Haförninn í Húsdýragarðinum.
Haförninn í Húsdýragarðinum. mbl.is/Árni Sæberg

Haförninn sem hefur verið í Húsdýragarðinum í einn og hálfan mánuð er að braggast. Hann fitnar og er duglegur að éta og flýgur um. Honum verður líklega sleppt aftur út í náttúruna eftir tvær til þrjár vikur, að sögn dýrahirðis Húsdýragarðsins.  

„Hann er mjög spakur og rólegur. Það er spurning hvort hann komi til með að geta plumað sig að veiða,“ segir Jón Gíslason dýrahirðir Húsdýragarðsins. Örninn flýgur um í búrinu þegar hann er rekinn til en alla jafna hreyfir hann sig ekki þegar starfsmaður fer inn í búrið, slíkt háttarlag er óalgengt.  

Snorri Rafns­son, sem einnig er þekkt­ur sem Varg­ur­inn, fangaði fuglinn í byrjun desember í ná­grenni Ólafs­vík­ur. Hann og faðir hans höfðu í fjór­ar vik­ur fylgst með honum þar sem hann virt­ist held­ur mátt­far­inn. Snorri hlúði að honum í nokkra daga áður en hann fór með hann í Húsdýragarðinn. 

Haförninn er ungi frá því í vor. „Hann finnst óvenju langt frá heimkynnum sínum miðað við aldur. Vanalega fara þeir ekki frá foreldrum sínum fyrr en um þetta leyti eða í seinnipartinn janúar. Hann var kominn langt í burtu frá hreiðrinu seint í haust,“ segir Jón.   

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, sviðsstjóri dýrafræði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, merkti fuglinn þegar hann var ungi. Hann fylgist vel með því hvernig fuglinn braggast og mun taka ákvörðun um hvenær honum verður sleppt aftur á heimaslóðir.   

Snorri Rafnsson fór með fuglinn í Hhúsdýragarðinn í desember.
Snorri Rafnsson fór með fuglinn í Hhúsdýragarðinn í desember. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert