Gagnrýna lengd málsmeðferðar á lögbannið

Björt Ólafsdóttir, formaður Bjartrar framtíðar og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður …
Björt Ólafsdóttir, formaður Bjartrar framtíðar og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í Silfrinu í dag. Skjáskot/RÚV

Lengd málsmeðferðar lögbanns Glitn­is Holdco gegn Stund­inni og Reykja­vík Media kom til umræðu í Silfrinu á Rúv í dag. Yfir 100 dagar eru frá því að Glitn­ir HoldCo ehf. fór á þess á leit við sýslu­mann­sembættið á höfuðborg­ar­svæðinu að lög­bann yrði lagt við birt­ingu Stund­ar­inn­ar og Reykja­vík Media ehf. á frétt­um eða ann­arri um­fjöll­un sem byggja á eða eru unn­ar úr gögn­um er varða einka­mál­efni veru­legs fjölda fyrr­ver­andi viðskipta­vina Glitn­is sem eru því bundn­ar banka­leynd.

Stund­in og Reykja­vík Media voru á föstudag sýknuð af kröfu þrota­bús Glitn­is um staðfest­ingu á lög­banni á um­fjöll­un miðlanna upp úr gögn­um sem fjöl­miðlarn­ir höfðu und­ir hönd­um inn­an úr fallna bank­an­um.

Frétt mbl.is: „Fólkið í landinu sem tapar“

„Ég vona að Glitnir HoldCo sjái sér hag í því að láta hér staðar numið,“ sagði Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Stundarinnar, í Silfrinu í dag.

Hægt er að áfrýja niðurstöðu dómsins  til Landsréttar og sæta miðlarnir því enn lögbanni á meðan málsmeðferð stendur yfir, jafnvel einhverja mánuði. Áfrýjunarfrestur er þrjár vikur frá uppkvaðningu dóms.

Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og þingmaður Samfylkingarinnar, segir að endurskoða þurfi málsmeðferð í lögbannsmálum, sérstaklega í ljósi þeirra hagsmuna sem eru í húfi. „Ég væri til í að skoða hvort það væri hægt að sleppa sýslumannshlutanum. Það þarf ekki 100 daga til að klára svona mál. Það á að vera hægt að úrskurða strax,“ sagði Helga Vala.

„Ég dæsti bara“

Á föstudag tilkynnti for­sæt­is­ráðherra fyr­ir­komu­lag vinnu við end­ur­bæt­ur á lög­gjöf á sviði tján­ing­ar-, fjöl­miðla- og upp­lýs­inga­frels­is á fundi rík­is­stjórn­ar­inn­ar í morg­un. Skipuð verður sjö manna nefnd með full­trú­um þeirra ráðuneyta sem fara með fram­kvæmd lög­gjaf­ar á þessu sviði og öðru kunn­áttu­fólki.

Frétt mbl.is: Endurbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla-, og upplýsingafrelsi

Helga Vala er ekki sannfærð um að nefndin muni stuðla að hraðari málsmeðferð. „Ég hef smá áhyggjur af því að það á að skipa nefnd. Ég dæsti bara.“

Björt Ólafsdóttir, formaður Bjartrar framtíðar, tók í sama streng og Helga Vala. „Hvað er verið að fela? Af hverju þessi leyndarhyggja og af hverju þessi töf? Þetta er ekki mjög heppilegt.“ Björt sagði einnig að markmið stjórnmálamanna með nefndarskipan yrðu að vera skýrari.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Stundarinnar, …
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Stundarinnar, í Silfrinu á RÚV í dag. Skjáskot/RÚV

„Maður undrast það hvað þetta hefur tekið langan tíma, miðað við aðstæður í málinu,“ sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er þeirrar skoðunar að lögbannsmálið veiti tækifæri til að skoða hvaða reglum þurfi að breyta. „Þetta er auðvitað allt of langur tími sem þetta tekur.

Það þarf að skoða hvaða reglum þarf að breyta, þarna er um að ræða hagsmuni sem togast á. Almannahagsmunir hljóta að vera að niðurstaða liggi fyrir sem allra allra fyrst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka