„Við erum að fara yfir um!“ Og svo nokkrum mínútum seinna: „Við erum að fara! Skilið ástarkveðju minni og skipsmanna til eiginkvenna okkar og fjölskyldna!“
Þannig hljómaði hinsta kveðja skipstjórans á togaranum Ross Cleveland frá Hull. Það var loftskeytamaður á öðrum breskum togara við Ísland sem heyrði kallið, að því er fram kom í skeyti frá fréttastofu AP. Nú um helgina er hálf öld liðin frá þessum atburði en Ross Cleveland fórst í aftakaveðri í Ísafjarðardjúpi. Það gerði líka vélbáturinn Heiðrún II frá Bolungarvík og með honum sex menn, þar af faðir og tveir synir hans á unglingsaldri.
Varðskipið Óðinn bjargaði á hinn bóginn áhöfninni á öðrum breskum togara, Notts County, með frækilegum hætti, ef frá er talinn einn maður sem króknaði.
Átján manns fórust með Ross Cleveland en einn komst lífs af; Harry Eddom 1. stýrimaður. Hann stökk í sjóinn þegar einsýnt var að togarinn væri að sökkva og missti við það meðvitund. Tveir félagar hans drógu hann hins vegar um borð í gúmbjörgunarbát. Báturinn hafði laskast og gekk sjór inn í hann og urðu skipbrotsmennirnir sífellt máttfarnari. Eftir nokkra klukkutíma létust félagar Eddoms báðir úr vosbúð. Um hálfum sólarhring síðar rak bátinn á land í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi. Eddom lagði af stað fótgangandi og sá móta fyrir húsi í botni fjarðarins. Þegar hann kom þangað reyndist það vera harðlæstur og mannlaus sumarbústaður. Þar sem Eddom hafði ekki krafta til að brjótast inn kom hann sér fyrir undir húsveggnum, þar sem bóndasonurinn á næsta bæ, Kleifum, Guðmann Guðmundsson, fann hann. Eddom var þarna talinn af og höfðu eiginkona hans og fjölskylda syrgt hann í hálfan annan sólarhring.
„Ég reyndi að sparka upp hurðinni á þessu húsi, en gat það ekki, hafði ekki krafta til þess,“ sagði Eddom í samtali við Morgunblaðið. „Þegar ég gerði mér grein fyrir þessu, þá fór ég á bak við húsið, því þar var ég í skjóli og þar stóð ég upp á endann alla nóttina. Ég vissi að ef ég settist niður, þá mundi ég deyja. Hvernig? Jú, ég hímdi fyrir utan og ég beið og vissi ekki hvað ég átti að gera. Þá sá ég hvar drengur var að reka kindur til fjalla. Hann sá mig ekki. Ég kallaði. Hann heyrði til mín. Hann kunni lítið í ensku. Ég reyni samt sem áður að segja honum hvernig þetta hafði allt borið að. Hann tekur mig sér við hönd og hjálpar mér í áttina að bænum. Þegar við áttum stutt eftir þangað kemur bóndinn á móti okkur og þá vissi ég að mér hafði verið bjargað.“
Atburðurinn vakti heimsathygli og þótti með ólíkindum að maðurinn skyldi lifa af þær raunir sem hann mátti þola. Um fjörutíu breskir fjölmiðlamenn komu til landsins vegna þessara atburða og brutust út slagsmál er í ljós kom að eitt blaðanna hafði tryggt sér einkaviðtal og einkaleyfi af myndum af endurfundum Harrys Eddom og eiginkonu hans, Ritu, gegn því að borga fyrir hana farið til landsins.
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.