Dómsmál umbjóðanda Vilhjálms H. Vilhjálmssonar verður ekki tekið til efnislegar meðferðar í Landsrétti í bráð, nema Landsréttur samþykki kröfu Vilhjálms um að einn dómara í málinu, Arnfríður Einarsdóttir, segi sig frá málinu sökum vanhæfis.
Verði Landsréttur ekki við kröfunni verður niðurstaðan kærð til Hæstaréttar, að sögn Vilhjálms. Hann vildi annars ekki upplýsa um efnisatriði kröfunnar í samtali við mbl.is.
Fram kom á vef Ríkisútvarpsins í gær að í kröfunni væri meðal annars vísað til dóma Hæstaréttar í málum Ástráðs Haraldssonar og Jóhannesar Rúnarssonar, en íslenska ríkið var dæmt til að greiða hvorum þeirra 700 þúsund krónur í miskabætur vegna ólöglegrar málsmeðferðar við skipan dómara í Landsrétt.
„Málsaðilum verður gefinn kostur á að tjá sig um þessa kröfu í fyrramálið, þegar málflutningur átti að vera,“ segir Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, í samtali við mbl.is.
Hann vildi ekki tjá sig nánar um efnisatriði kröfunnar eða það hvaða þýðingu þessi krafa gæti haft fyrir störf dómara við Landsrétt.
Dómarar málsins meta sjálfir hæfi sitt, en auk Arnfríðar eru það þeir Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson. Arnfríður er einn þeirra fjögurra dómara við Landsrétt sem skipaðir voru af Sigríði Á. Andersen án þess að hafa verið á meðal fimmtán efstu í hæfnismati sérstakrar hæfnisnefndar.
Heimildir mbl.is herma að meint vanhæfi Arnfríðar sé í kröfunni sagt vera vegna þess að skipun hennar sem dómara við Landsrétt hafi ekki verið lögum samkvæm.
Þannig virðist eiga að láta á það reyna hvort skipan dómara við réttinn standist lög, eða hvort mögulega megi véfengja úrlausnir þeirra og jafnvel ógilda á sama grundvelli síðar meir.