Aðalmeðferð í máli Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, gegn íslenska ríkinu vegna ólögmætra hlerana og óréttlátrar málsmeðferðar hefur verið frestað vegna veikinda. Aðalmeðferðin var á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur á morgun.
Ólafur Eiríksson, lögmaður Hreiðars Más, segir í samtali við mbl.is að ný dagsetning hafi ekki verið fundin, en að öllum líkindum fer málið ekki fram fyrr en í apríl.
Í stefnu málsins fer Hreiðar Már fram á 10 milljóna króna miskabætur, auk dráttarvaxta og kröfu um málskostnað, eins og fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.
Mál hans byggist á því að allir símhlustunarúrskurðir sem sérstökum saksóknara var veitt gagnvart honum hafi verið ólögmætir, þar sem þeir hafi verið kveðnir upp í röngu varnarþingi.
Höfðuð voru fimm sakamál á hendur Hreiðari Má með ákæru á grundvelli rannsókna sérstaks saksóknara. Tveimur þessara mála er lokið með sakfellingu fyrir Hæstarétti, eitt var ógilt og vísað aftur í hérað af Hæstarétti, eitt bíður meðferðar fyrir Landsrétti og eitt er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.