Myndatökur verða ekki leyfðar í dómsölum Landsréttar nema í undantekningartilfellum. Þetta varð ljóst í morgun, er ljósmyndarar frá mbl.is og Morgunblaðinu og fleiri miðlum fengu ekki leyfi til þess að mynda inni í dómsalnum áður en dómþing var sett.
Sagði Björn L. Bergsson skrifstofustjóri Landsréttar við fjölmiðlafólk á vettvangi að myndatökur í dómsölum Landsréttar yrðu einungis leyfðar í undantekningartilfellum.
„Það verða ekki myndatökur inni í dómsal,“ ítrekar Björn í samtali við mbl.is. „Þetta eru fyrst og fremst bara dómsalir, sem er verið að dæma í og það er meginskýringin,“ segir hann ennfremur.
„Það hefur verið umræða á vegum Dómstólasýslunnar um að takmarka myndatökur í dómhúsum. Ég held að það hafi verið fundur með fulltrúum Blaðamannafélagsins, um að taka upp dönsku línuna, sem er sú að það sé ekki yfir höfuð tekið upp myndefni inni í dómhúsum. Ég held að menn séu nú ekki að fara þangað, en þetta er sú lína sem hefur verið lögð hér,“ segir Björn.
Samkvæmt dönskum lögum eru allar myndatökur í dómhúsum bannaðar og sömuleiðis er bannað að taka myndir af einstaklingum sem eru á leið í dómhús.
Svipað fyrirkomulag er í Noregi, en hérlendis hefur bann við myndatökum í dómhúsum aldrei verið samþykkt á Alþingi þrátt fyrir frumvörp þar um og mætt andstöðu Blaðamannafélagsins, auk annarra.
Björn segir aðspurður að dómstólum væri frjálst að setja reglur um myndatökur í húsakynnum sínum.
„Það er ekkert sem bannar eða leyfir myndatökur í einstökum rýmum þessara húsa. Dómstóllinn í sjálfu sér gæti neitað um myndatökur inni í húsinu, en það stendur ekki til að fara að ganga svo langt,“ segir Björn.
Er ljósmyndarar komu á staðinn laust fyrir klukkan 11 í morgun voru báðir lögmennirnir komnir inn í dómsalinn og þangað var þeim meinað að fara. Það vakti nokkra undrun, enda hefur almennt verið hægt að mynda inni í dómsal við upphaf dómþinga í héraðsdómi og Hæstarétti.
„Það er verið að gera ýmislegt í fyrsta sinn,“ segir Björn um undrun fjölmiðlafólksins. „Ef það er eitthvað öðruvísi í laginu en menn eru vanir, þá kemur það öðruvísi út.“
Einn fréttamanna á staðnum dó ekki ráðalaus, heldur fór inn í dómsalinn og bað lögmennina um að ganga aftur inn í salinn fyrir ljósmyndara og myndatökumenn á svæðinu. Þeir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Jón H. B. Snorrason urðu við þeirri beiðni.