Umferðin mjakast vart áfram

Myndin er tekin fyrir stuttu á Nýbýlaveginum.
Myndin er tekin fyrir stuttu á Nýbýlaveginum. Ljósmynd Magnús Ásmundsson

Umferðin gengur afar hægt á öllu höfuðborgarsvæðinu og víða hafa myndast langar bílalestir en þæfingsfærð er og nauðsynlegt að fara að öllu með gát. Að sögn varðstjóra í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki orðin nein slys í umferðinni það sem af er degi. Vegna slæmrar færðar biður lögreglan fólk um að fara varlega hvort heldur sem farið er akandi eða gangandi og gefa sér góðan tíma í að komast á milli staða.

Það er hálka og skafrenningur á Sandskeiði og í Þrengslum en snjóþekja og skafrenningur á Hellisheiði. Mosfellsheiði er ófær og þæfingur á Lyngdalsheiði en mokstur er hafinn. Snjóþekja og éljagangur er annars á flestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi og sumstaðar einhver skafrenningur.

Hálka og snjóþekja er á vegum um allt sunnan og vestanvert landið og víða éljagangur en unnið að mokstri en á Norðaustur- og Austurlandi er talsvert mikið autt. - Hálkublettir eða hálka er með suðausturströndinni.

Spáð er suðvestan 8-15 m/s og éljum, en lægir í dag og styttir upp á höfuðborgarsvæðinu. Vaxandi suðaustanátt seint í kvöld, 13-20 og rigning eða slydda um tíma nótt. Suðvestan 10-18 og él í fyrramálið. Frost 0 til 5 stig, en hlánar um tíma í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert