Fullkanni flutning í Hvassahraunið

Reykjavíkurflugvöllur úr lofti. Samstarfshópurinn telur að fullkanna þurfi flugvallarskilyrði í …
Reykjavíkurflugvöllur úr lofti. Samstarfshópurinn telur að fullkanna þurfi flugvallarskilyrði í Hvassahrauni sem mögulegs arftaka Reykjavíkurflugvallar. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Fullkanna þarf flugvallarskilyrði í Hvassahrauni jafn fljótt og auðið er, með nauðsynlegum rannsóknum er varða flug á svæðinu. Þetta eru niðurstöður starfshóps um framtíð Reykjavíkurflugvallar, sem skilaði Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, nýverið áfangaskýrslu sinni um málið.

Jón Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra, skipaði hópinn í september á síðasta ári. Er það mat hópsins að fullkanna þurfi flugvallarskilyrðin áður en ákvörðun sé tekin um að byggja nýjan flugvöll þar. Þá verði einnig að tryggja  greiðar samgöngur milli borgarinnar og flugvallarins, verði af framkvæmdinni. „Þá leggur hópurinn áherslu á að tryggja verði rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri og að brautir verði ekki styttar eða þeim lokað fyrr en nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar,“ að því er segir í frétt á vef stjórnarráðsins.

Þá bendir hópurinn enn fremur á að „hraða verði ákvarðanatöku vegna málsins sem kostur er.“

Starfshópinum var falið að leiða viðræður samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila til að finna viðunandi lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar þar sem hægt væri að sætta ólík sjónarmið.

Meðal þeirra skilyrða sem hópinum var gert að taka mið af var að allir landsmenn komist fljúgandi til og frá höfuðborgarsvæðinu á innan 3,5 klst. ferðatíma. Þjónustan verði sömuleiðis sambærileg í getu og afköstum og sú sem nú er í boði á Reykjavíkurflugvelli.

Vegna öryggissjónarmiða þurfi flugvöllurinn einnig að geta þjónað millilandaflugi með góðu móti.

„Stjórnvöld geti ekki skuldbundið sig við dagsetningar til þess að opna nýjan flugvöll fyrr en staðsetning og hönnun liggur fyrir og að öll skilyrði um þjónustu flugvallarins og fjármögnun af fjárlögum eru uppfyllt.“

Sömuleiðis þurfi að hafa almannavarnarhlutverk og kennsluhlutverk flugvallarins í huga, fyrri skýrslur Þorgeirs Pálssonar um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar og Rögnunefndarinnar, sem og samkomulag Reykjavíkurborgar og ríkisins frá því í apríl og október 2013 og markmið samgönguáætlunar höfuðborgarsvæðisins.

Í hópnum sátu Hreinn Loftsson, lögmaður, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir ráðgjafi, Linda Gunnarsdóttir flugstjóri, Róbert Guðfinnsson athafnamaður og Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert