Fulltrúar Primera Air mættu ekki á fund sem ríkissáttasemjari hafði boðað í dag í kjaradeilu félagsins og Flugfreyjufélags Íslands. Er þetta sjötti fundur ríkissáttasemjara sem fulltrúar félagsins virða að vettugi. Þetta staðfesti Magnús Norðdahl, yfirlögfræðingur hjá ASÍ, í samtali við mbl.is, en ASÍ hefur verið Flugfreyjufélaginu innan handar vegna málsins.
Deilan snýst um kaup og kjör starfsmanna Primera Air, en flugfélagið hefur ekki viljað gera kjarasamning við Flugfreyjufélagið og greiðir því ekki samkvæmt íslenskum kjarasamningum.
Primera Air telur að ríkissáttasemjari hafi ekki lögsögu í málinu, meðal annars vegna þess að félagið starfi ekki á íslenskum markaði. Þá telur Primera Air Flugfreyjufélagið ekki hafa umboð til að semja fyrir hönd flugfreyja þeirra og þjóna, enda séu þeir ekki félagar í félaginu.
Staðan í málinu er því óbreytt en í lok janúar samþykkti stjórn og trúnaðarráð Flugfreyjufélagsins einróma á fundi sínum að hefja undirbúning að verkfalli. Sérstaklega verður hugað að því að velja þann tíma til verkfallsaðgeða þegar rekstur Primera Air er í hámarki hér á landi.