Fulltrúar Primera mættu ekki á fund

Fulltrúar Primera Air telja ríkissáttasemjara ekki hafa lögsögu í málinu.
Fulltrúar Primera Air telja ríkissáttasemjara ekki hafa lögsögu í málinu. mbl.is

Fulltrúar Primera Air mættu ekki á fund sem ríkissáttasemjari hafði boðað í dag í kjaradeilu félagsins og Flugfreyjufélags Íslands. Er þetta sjötti fundur ríkissáttasemjara sem fulltrúar félagsins virða að vettugi. Þetta staðfesti Magnús Norðdahl, yfirlögfræðingur hjá ASÍ, í samtali við mbl.is, en ASÍ hefur verið Flugfreyjufélaginu innan handar vegna málsins.

Deilan snýst um kaup og kjör starfs­manna Pri­mera Air, en flug­fé­lagið hef­ur ekki viljað gera kjara­samn­ing við Flug­freyju­fé­lagið og greiðir því ekki sam­kvæmt ís­lensk­um kjara­samn­ing­um.

Primera Air telur að ríkissáttasemjari hafi ekki lögsögu í málinu, meðal annars vegna þess að félagið starfi ekki á íslenskum markaði. Þá telur Primera Air Flugfreyjufélagið ekki hafa umboð til að semja fyrir hönd flugfreyja þeirra og þjóna, enda séu þeir ekki félagar í félaginu.

Staðan í málinu er því óbreytt en í lok janúar samþykkti stjórn og trúnaðarráð Flugfreyjufélagsins einróma á fundi sínum að hefja undirbúning að verkfalli. Sérstaklega verður hugað að því að velja þann tíma til verkfallsaðgeða þegar rekstur Primera Air er í hámarki hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert