Grímuklæddur maður réðst á 13 ára dreng

Drengurinn náði að hrista manninn af sér og komast undan.
Drengurinn náði að hrista manninn af sér og komast undan. mbl.is/Hjörtur

Grímuklæddur maður réðst á 13 ára dreng undir Hamrinum í Hveragerði um klukkan fimm í dag og skipaði honum að afhenda sér allt sem hann var með, þá sérstaklega síma. Maðurinn réðst aftan að drengnum og ýtti honum niður, en drengurinn, sem er stór eftir aldri, náði að snúa sér við og koma sér undan. Hundur drengsins kom þá aðvífandi og glefsaði í manninn sem flúði í kjölfarið af vettvangi. Maðurinn náði því ekki að stela neinu af drengnum.

mbl.is ræddi við stjúpföður drengsins sem vildi ekki koma fram undir nafni. Hann vildi hins vegar endilega biðja foreldra og börn í Hveragerði að vera vakandi og gæta sín ef þau væru ein á ferli.

Maðurinn segir að stjúpsyni sínum hafi vissulega brugðið við árásina en hann hafi fyrst og fremst orðið reiður yfir því að maðurinn skyldi hafa ætlað að taka nýja símann hans. Hann er aumur í fætinum eftir árásina, en virðist ekki vera í sjokki, að sögn stjúpföðurins.

Foreldrarnir höfðu strax samband við lögregluna sem kom og ræddi við drenginn og fékk lýsingar á manninum, en hann var með lambhúshettu yfir andlitinu.

Lögreglan á Suðurlandi staðfestir að tilkynning hafi borist um líkamsárás í Hveragerði í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert