Forseti framkvæmdastjórnar Samtaka biskupa í ríkjum Evrópusambandsins (COMECE), þýski kardinálinn Reinhard Marx, hefur fordæmt frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, og átta annarra þingmanna til breytinga á almenningum hegningarlögum þar sem gert er ráð fyrir að umskurður barna verði bannaður hér á landi en ekki aðeins stúlkubarna eins og lögin kveða á um í dag.
Marx, sem er náinn ráðgjafi Benedikts páfa, segir í yfirlýsingu sem send var út í gær að frumvarpið, verði það að lögum, feli í sér hættulega árás á trúfrelsi og vísar þar til þess að sveinbörn eru gjarnan umskorin í gyðingdómi og þekkist einnig á meðal múslima. Rifjað er upp á vefsíðunni Crux að horft sé meðal annars til ráðgjafar danskra lækna með frumvarpinu sem hafi sagt að ekki ætti að umskera dengi undir 18 ára aldri.
Haft er eftir Marx að réttmætt sé að standa vörð um heilsu barna en í þessu tilfelli sé spjótunum beint að ákveðnum trúarhópum án vísindalegra raka sem ylli miklum áhyggjum. Samtök hans litu á hverja tilraun til þess að skerða trúfrelsið sem óásættanlega. Einnig kemur fram að óháð trúarlegri gagnrýni hafi sumir læknar haldið því fram að umskurður drengja drægi úr líkunum á kynsjúkdómum og kynfærasýkingum.
Marx hefur hvatt stofnanir Evrópusambandsins til þess að grípa til aðgerða og koma í veg fyrir framkvæmd laganna, samþykki Alþingi lagafrumvarpið. Þótt Ísland sé ekki hluti af sambandinu njóti landið engu að síður „forréttindasambands“ við það, en þar er vísað til aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), og hafi enn fremur heitið því að virða grundvallargildi sambandsins um grundvallarmannréttindi og -frelsi.
Trúarleiðtogar gyðinga í Evrópu höfðu áður lýst yfir miklum áhyggjum sínum af lagafrumvarpinu og hvatt til þes að frumvarpið yrði stöðvað. Silja Dögg hefur sagt að málið snúist í hennar huga um barnavernd númer eitt, tvö og þrjú.