29 milljónir í aksturskostnað þingmanna

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aksturskostnaður þingmanna í fyrra nam rúmlega 29 milljónum króna og var kostnaður fyrir þann þingmann sem fékk hæstan endurgreiddan kostnað 4,6 milljónir króna. Aksturskostnaður hefur frá árinu 2013 farið lækkandi ár frá ári, en það ár nam hann tæplega 60 milljónum. Greint er frá þessu í svari forseta Alþingis við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata.

Í svarinu tekur forseti þingsins fram að akstur þingmanna fari eftir mjög skýrum reglum sem séu aðgengilegar og að litið sé á að aksturinn tengist starfi alþingismanna fyrir umbjóðendur sína. Þess vegna hafi almennt ekki verið veittar persónugreinanlegar upplýsingar um þessar endurgreiðslur.

Er í svarinu því birtar upplýsingar um heildarkostnað vegna aksturs og upphæðir þeirra 10 þingmanna sem fengu hæstan kostnað endurgreiddan. Tekið er fram að bæði sé um að ræða kostnað vegna aksturs á þingstað og akstur vegna funda.

Í fyrra voru tveir þingmenn sem fengu greiddar á milli þrjár og fjórar milljónir og fjórir þingmenn sem fengu á milli tvær og þrjár milljónir í endurgreiðslu.

Samtals var endurgreitt fyrir akstur 284.281 kílómetra í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert