Enn einu sinni hefur verið gripið til þess ráðs að loka Hellisheiði og Mosfellsheiði vegna veðurs. Þrengslavegur er opinn en líkt og á Mosfellsheiði má búast við lokunum fljótlega. Í yfirliti Vegagerðarinnar um færð á vegum segir að hálka og skafrenningur sé á Sandskeiði og í Þrengslunum.
Það eru hálkublettir og snjókoma á höfuðborgarsvæðinu. Það er snjóþekja og snjókoma á Reykjanesbraut og á Reykjanesi. Hálka og skafrenningur er á Sandskeiði og í Þrengslum. Þæfingsfærð er í Hvalfirði.
Snjóþekja eða hálka er víðast hvar á Suðurlandi og snjókoma. Þungfært og éljagangur er á Lyngdalsheiði en þæfingsfærð austanmegin við Þingvallavatn.
Það er hálka, snjóþekja eða þæfingur og skafrenningur eða éljagangur á vegum á Vesturlandi. Þæfingsfærð er á Holtavörðuheiði en þungfært á Bröttubrekku.
Á Vestfjörðum er þæfingsfærð eða þungfært á flestum fjallvegum en snjóþekja eða hálka á láglendi og verið að hreinsa.
Á Norðvesturlandi er víða hálka, snjóþekja eða þæfingur og éljagangur og verið að hreinsa. Á Norðausturlandi eru víða hálkublettir og sumstaðar greiðfært.
Hálka eða snjóþekja er á vegum á Austurlandi og með suðausturströndinni. Éljagangur er í Öræfasveit.
Reikna má með slæmu skyggni í éljum suðvestan- og vestanlands í dag. Athygli er einnig vakin á austanstormi með snjókomu og skafrenningi sunnanlands annað kvöld.
Uppfært kl 10:28: Enn er lokað á Hellisheiði og Mosfellsheiði.