Ekki fengið nein svör frá ráðherra

Kindur í kró. Félag atvinnurekenda er ósátt við að eiga …
Kindur í kró. Félag atvinnurekenda er ósátt við að eiga ekki lengur fulltrúa í samráðshópi um endurskoðun búvörulaga. mbl.is/Atli Vigfússon

Það er ágætt að vega saman sjónarmið neytenda og landbúnaðar, en samráðshópurinn um endurskoðun búvörusamninga er þó eftir sem áður of þröngur að mati Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.

Greint var frá því fyrr í dag að Kristján Þór Júlí­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, hafi skipað þau Bryn­hild­i Pét­urs­dótt­ur frá Neyt­enda­sam­tök­un­um og Har­ald­ Bene­dikts­son, þingmann Sjálf­stæðis­flokks­ins, for­menn hóps­ins og fara þau sam­eig­in­lega með for­mennsku.

„Út af fyrir sig er alveg ágætt að þarna séu vegin saman sjónarmið neytenda og landbúnaðar. Hins vegar þegar maður skoðar hópinn þá vega sjónarmið landbúnaðarins þar þyngra heldur en maður hefði gert ráð fyrir, ef þetta á að verða eitthvað alvöru þjóðarsamtal eins og var lagt upp með þegar hópurinn var stofnaður,“ segir Ólafur.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir samráðshópinn um endurskoðun búvörusamninga …
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir samráðshópinn um endurskoðun búvörusamninga vera of þröngan.

Kristján Þór leysti í desember upp fyrri samráðshóp um búvörusamningana og er hópurinn nú skipaður átta full­trú­um í stað þrett­án áður.

„Við teljum að hópurinn sé orðin of þröngur,“ segir Ólafur. Félag atvinnurekenda sendi ráðherra bréf í janúar þar sem því er mótmælt að félagið eigi ekki lengur aðkomu að endurskoðuninni. Ráðherra sé með þessu að svíkja „loforð sem gefið var við meðferð laga um búvörusamninga á Alþingi“.  

Ákvæðið um samráðshóp hafi komið inn í búvörulögin „eftir að búvörusamningarnir höfðu orðið fyrir harðri gagnrýni af hálfu fulltrúa mjög breiðs hóps samtaka fyrirtækja og almennings í landinu,“ að því er sagði í frétt FA á sínum tíma

Ólafur segir FA enn ekki hafa fengið nein svör við bréfi sínu. „Við höfum ekki fengið neina skýringu á því frá ráðherranum af hverju sjónarmiðum okkar félags er ýtt frá þessu borði,“ segir hann.

Samtök Atvinnulífsins, sem eigi enn fulltrúa í samráðshópnum hafi hins vegar mikið af hagsmunaaðilum landbúnaðarins innan sinna vébanda. „Þegar það átti að taka tillit til sjónar atvinnulífsins, þá teljum við að það hefði líka átt að taka tillit til okkar félagsmanna sem margir hverjir eru ekkert í Samtökum atvinnulífsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert