Hafa ekki fundið grímuklædda ræningjann

Árásin átti sér stað undir Hamrinum í Hveragerði.
Árásin átti sér stað undir Hamrinum í Hveragerði. mbl.is/RAX

Lögreglan á Suðurlandi hefur ekki haft uppi á manni sem réðst að 13 ára gömlum dreng undir Hamrinum í Hveragerði um klukkan fimm í gær og reyndi að ræna hann.

Nokkuð víðtæk leit var gerð að manninum í Hveragerði eftir að tilkynning barst um málið, en hún var án árangurs, að sögn lögreglu.

Maðurinn var með lambhúshettu á höfðinu og lögregla hefur ekki hugmynd um hver hann er, eða á hvaða aldursbili hann gæti verið.

Rannsókn málsins stendur yfir.

Hundurinn hrakti ræningjann á flótta

Eins og greint var frá í gær réðst maðurinn aftan að drengnum og ýtti honum niður, en dreng­ur­inn náði að snúa sér við og koma sér und­an. Hund­ur drengs­ins kom aðvíf­andi og glefsaði í mann­inn sem flúði í kjöl­farið af vett­vangi.

Maður­inn náði því ekki að stela neinu af drengn­um, sem var nokkuð brugðið við árásina og reiður yfir því að maðurinn skyldi hafa ætlað sér að stela nýja símanum hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert