Vegalokanir komnar úr böndunum

Vegagerðin hefur oft lokað Hellisheiði vegna ófærðar í vetur.
Vegagerðin hefur oft lokað Hellisheiði vegna ófærðar í vetur. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta er orðið allt of algengt. Við sjáum það öll sem höfum reynslu af því að keyra þennan veg,“ segir Eyþór H. Ólafsson, íbúi í Hveragerði, um lokanir Vegagerðarinnar á Hellisheiði í vetur. Eyþór segist hafa ekið veginn um Hellisheiðina nánast daglega, stundum tvisvar á dag, í að verða tuttugu ár en hann starfar hjá Eimskip í Reykjavík. 

„Þessar lokanir eru komnar úr böndunum og það er gríðarleg óánægja með þetta fyrir austan,“ segir Eyþór og vitnar í mikla umræðu í Facebook-hópi Hvergerðinga máli sínu til stuðnings.

Það sem Eyþór og fleiri gagnrýna er að í raun sé ekkert að færðinni þegar veginum um heiðina sé lokað. Að sjálfsögðu sé þar vetrarfærð eins og við er að búast á þessum árstíma en vegurinn sé langoftast fær vönum bílstjórum á vel útbúnum bílum. 

„Ég var nýkominn yfir heiðina til Reykjavíkur í morgun þegar tilkynnt var að henni hefði verið lokað. Það var ekkert að færðinni. Stundum er auðvitað slæmt skyggni og svona en þannig hefur það nú oft verið í gegnum tíðina.“

Eyþór segir að vandinn virðist vera sá að Vegagerðin sé að lenda í vandræðum vegna bíla sem eru illa útbúnir til vetraraksturs og þá oft bílaleigubíla ferðamanna. „En þetta bitnar á öllum, sérstaklega þeim sem þurfa á veginum að halda, og það er það sem er vont við þetta.“

Engum er hleypt fram hjá vegatálmunum að sögn Eyþórs, jafnvel ekki þeim sem eru á vel útbúnum bílum. „Það er bara lokað og sett í lás.“ Sjálfur er Eyþór á fjórhjóladrifnum meðalstórum bíl. Hann segist lengi hafa ekið heiðina á minni bíl og það hafi gengið vel.

Hvergerðingar vilja að Hellisheiðin sé rudd oftar og að oftar …
Hvergerðingar vilja að Hellisheiðin sé rudd oftar og að oftar verði boðið upp á fylgdarakstur, þ.e. að hægt sé að elta snjóruðningstækin yfir heiðina. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lokanirnar hafa bitnað á vinnunni hjá Eyþóri. Hann segir að Vegagerðin bendi stundum á að Suðurstrandarvegurinn sé opinn þegar heiðin er lokuð en það sé tveggja klukkustunda akstursleið og í raun ekki valkostur. 

Hann segir að þeir sem hafa mikla reynslu af að aka um heiðina skilji oft ekki af hverju henni er lokað. „Hellisheiðin er lífæð fjölda fólks,“ bendir hann á. Oft sé nú talað um að byggðirnar fyrir austan séu orðnar hluti af atvinnusvæði höfuðborgarsvæðisins og sífellt fleiri búi á Selfossi og í Hveragerði en sæki vinnu til borgarinnar og nágrannasveitarfélaganna.

Þá gagnrýnir Eyþór einnig upplýsingastreymið inni á vef Vegagerðarinnar. Seint sé látið vita þegar búið er að opna vegina og þá sé aldrei látið vita ef fylgdarakstur sé í boði.

Eyþór segir að endurskoða þurfi framkvæmd lokananna. Meðal þess sem fólk austan heiðar ræði um sé að Vegagerðin hleypi vel útbúnum bílum í gegn. „Auðvitað er það erfitt í framkvæmd en það þarf að finna einhverja lausn. Að setja „lok, lok og læs“ gengur ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert