Grímur Atlason hefur komist að samkomulagi um starfslok og stígur því til hliðar sem framkvæmdastjóri Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar. Grímur greinir frá því á Facebook en fyrr í dag bárust fregnir þess efnis að Sena ætti í viðræðum um kaup á hátíðinni.
„Ég er stoltur og þakklátur fyrir að hafa fengið að stýra stórkostlegri tónlistarhátíð sem er langbesta tónlistarhátíðin á Íslandi og þó víðar væri leitað,“ segir Grímur en hann var átta ár í starfi.
Frétt mbl.is: Ræða kaup Senu á Iceland Airwaves
Jón Diðrik Jónsson, framkvæmdastjóri Senu Live, sagði við mbl.is fyrr í dag að fyrirtækið væri í viðræðum við Icelandair en ekkert væri þó klárt. „Mér sýnist þó stefna í þessa átt,“ sagði Jón sem gat ekki sagt til um hversu langan tíma viðræðurnar tækju.
„Ég kveð samstarfsfólk mitt með söknuði og ekki síst allt það frábæra tónlistarfólk sem ég hef fengið að starfa með,“ segir Grímur.